Myndir frá smíðum nýs fjölnota varðskips LHG, 29. apríl 2009

Meðfylgjandi eru myndir sem teknar voru á þilfari fyrir sjósetningu Þórs, hins nýja fjölnota varðskips Landhelgisgæslunnar.

Varðskipið er fyrsta skipið af þessari tegund sem smíðað er hjá ASMAR skipasmíðastöðinni í Chile og fullkomnasta skip sem þar hefur verið smíðað bæði hvað varðar getu og tækniútfærslur. Til að mynda er um borð sérstakur búnaður til mengunarvarna, fjölgeislamælir og DPS kerfi (Dynamic Position /Joystick System) sem veitir aukna nákvæmni í stjórn skipsins við erfiðar aðstæður. Þannig er hægt að láta skipið sjálft halda kyrru fyrir í ákveðinni stöðu á sama stað með mikilli nákvæmni. Þetta eykur hæfni skipsins til að nálgast t.d. strandað skip og koma dráttarbúnaði milli skipanna. Þá gefur þessi búnaður aukna möguleika á að stjórna skipinu við þröngar aðstæður þar sem snúa má því á alla kanta þó það hafi annað skip á síðunni. Skipið er einnig búið öflugum eftirlitsbúnaði svo sem innrauðum og nætur myndavélum en allur eftirlitsbúnaður sameinast í sérstakri stjórnstöð inni í miðri brúnni. Þá er gert ráð fyrir að skipið geti virkað sem færanleg stjórnstöð í neyðaraðgerðum og tengt björgunarlið við samræmingarstöð í Skógarhlíð þó svo að allt venjulegt fjarskiptasamband liggi niðri t.d. vegna náttúruhamfara. Hægt er að taka stórtækan björgunarbúnað um borð sem og fjölda manns sem getur skipt sköpum við björgunaraðgerðir.

Smíði þessa fjölhæfa og fjölnota hátækniskips hefur vakið gríðarlega athygli og fylgjast strandgæslur víða um heim með gangi mála. Dráttargeta skipsins er 120 tonn og ganghraði 19,5 sjómílur. Skipið er búið tveimur 4.500 kw aðalvélum, það er 4.250 brúttótonn, 93,65 metrar að lengd og 16 metra breitt. Til samanburðar má nefna að varðskipið Týr er 71 metra langt og 10 metra breitt með 56 tonna dráttargetu. Nýja varðskipið hefur alla eiginleika dráttarskips þannig að snúningspunktur dráttarvírs er fyrir framan stýri og skrúfur og því auðvelt að breyta stefnu þó svo að verið sé að draga miklu stærra og þyngra skip. Skipið er búið öflugum slökkvibúnaði og getur gefið þyrlum á flugi eldsneyti. Skipið er hannað af Rolls Royce Marine í Noregi og er hannað á grunni norska varðskipsins Harstadt sem norska strandgæslan hefur verið með í rekstri frá árinu 2005.

Smidi_1_290409

Smidi_2_290409

Smidi_3_290409


Þetta vefsvæði byggir á Eplica