Björgunarhlutverk stjórnstöðvar LHG

Stjórnstöð tekur á móti tilkynningum um yfirvofandi vá (viðbúnaðar- hættu- og neyðarástand) frá ýmsum aðilum t.d. í gegnum strandarstöðvarþjónustu VSS og tilkynningarskylduhluta VSS, Neyðarlínunni, fjarskiptamiðstöð og almannavarnadeild Ríkislögreglustjórans, skipum, lögreglu, innlendum sem erlendum björgunarmiðstöðvum og Flugmálastjórn. Tilkynningar berast þó oft eftir öðrum leiðum s.s. frá aðilum á vettvangi, sjónarvottum o.s.frv.

Stjórnstöðin bregst sjálf við atvikum í samræmi við mat varðstjóra á vakt, en þeir eru allir sérmenntaðir í sjóbjörgun og flestir með langa reynslu. Varðstjórar kalla til viðeigandi viðbragðsaðila, skip, þyrlur, flugvélar, björgunarsveitir o.s.frv. Ef þörf er á getur stjórnstöðin óskað eftir virkjun samhæfingarstöðvarinnar í Skógarhlíð.


Stjornstod3

Varðstjóri að störfum

Stjórnstöðin fer með yfirstjórn leitar- og björgunaraðgerða á skilgreindu leitar- og björgunarsvæði (SAR region) fyrir sjó umhverfis Ísland sem er rúmlega 1,8 milljón ferkílómetrar að stærð. Í því felst m.a. samhæfing og skipulag aðgerða, miðlun upplýsinga, söfnun gagna, skráning og skýrslugerð auk annarra samskipta við hlutaðeigandi aðila, fjölmiðla o.s.frv. Fyrirliggjandi upplýsingum um atburði er komið til viðbragðsaðila björgunareininga, svo sem um aðstæður til björgunar, fjölda manna, veður, skyggni, sjólag o.s.frv.

Ef atburðurinn á sér stað á sjó geta starfsmenn stjórnstöðvar nýtt sér sérstakt tölvuforrit til ákvörðunar leitarsvæða, m.a. útreikninga á reki, þörf fyrir leitareiningar auk ákvörðunar leitarsvæða og ferla þeirra. Grundvöllur slíkra reikninga eru margvíslegir m.a. hafa vindar, straumar, stærð og gerð hlutarins sem leitað er að áhrif á niðurstöður. Tölvuforritið, SAR-PC sem notað er í stjórnstöð er samið af bandarísku strandgæslunni, US Coast Guard (USCG) og er notað í öllum björgunarstjórnstöðvum bandarísku strandgæslunnar og víðar.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica