Sjómælingasvið Landhelgisgæslunnar - Sjómælingar Íslands

Ábyrgð á sjómælingum og sjókortum á Íslandi ber Landhelgisgæsla Íslands (LHG) skv. 11. lið 4. gr. laga nr. 52/2006. Sjómælingasvið Landhelgisgæslunnar, Sjómælingar Íslands*, hefur það meginhlutverk að sjá sjófarendum við strendur Íslands fyrir sjókortum og ýmsum öðrum sjóferðagögnum er stuðla að öruggri siglingu. LHG stundar sjómælingar og gefur út yfir 80 sjókort, yfirsiglinga-, strandsiglinga- og hafnakort. Samkvæmt reglum um björgunar- og öryggisbúnað íslenskra skipa þarf sérhvert skip að hafa nýjustu útgáfu nauðsynlegra sjókorta um borð.

Sjókort eru sérhæfð kort ætluð til að mæta þörfum sjófarenda. Þau sýna m.a. dýpi, botngerð, lögun og einkenni strandar, hættur, sjómerki og staðsetningu og ljóseinkenni vita. Leiðréttingar á sjókortum eru birtar í Tilkynningum til sjófarenda sem Sjómælingar Íslands gefa út reglulega. Það er á ábyrgð notandans að fylgjast með tilkynningunum og færa í viðkomandi sjókort.

Hjá sjómælingasviði starfa 8 manns í tveimur deildum, mælinga- og kortadeild. Á síðustu árum hefur megináhersla verið lögð á útgáfu strandsiglingakorta í mælikvarðanum 1:100 000 ásamt hafnakortum í mælikvarðanum 1:10 000.

Auk korta, prentaðra og rafrænna, gefur sjómælingasvið út Tilkynningar til sjófarend og önnur upplýsingarit og sjóferðagögn, s.s. sjávarfallatöflur, leiðsögubók (-bækur) fyrir sjómenn við Ísland, upplýsingarit um tákn og skammstafanir í sjókortum og kortaskrá.

Í aldanna rás hafa upplýsingar í sjókortum verið notaðar af sjófarendum til öruggra siglinga og verið grundvöllur fyrir könnun fjarlægra heimshluta og síðan forsenda aukinna verslunar og samgangna. Þetta grundvallaratriði er í raun óbreytt, sjómælingar eru grunnur að öllum samgöngum á sjó.


Kort þetta sýnir mælingar sem gerðar voru af Dönum árunum 1890 - 1906

 

Upphaf Sjómælinga Íslands má rekja til ársins 1929 er Friðrik Ólafsson hóf störf við sjómælingar. Stór hluti mælinga við Ísland er frá fyrri hluta 20. aldar. Því er mikið verk óunnið við sjómælingar og uppfærslu á sjókortum. Þá er á mörgum svæðum, einkum við hafnir og innsiglingaleiðir straumar sem breyta hafsbotninum og því þarf að mæla þar reglulega.

Á síðustu árum hefur orðið mikil aukning á beiðnum og fyrirspurnum frá ýmsum stofnunum og fyrirtækjum sem þurfa að nýta sér þær upplýsingar og þekkingar sem finna má hjásjómælingastofnunum um heim allan. Stofnanir, fyrirtæki og almenningur nýta sér þekkingu starfsfólks og upplýsingar frásjómælingasviði LHG. Þeirra á meðal eru orkuveitur, Siglingastofnun, Umhverfisstofnun, Fiskistofa, Náttúrufræðistofnun, Hafrannsóknarstofnun og svo mætti lengi telja. Ýmis ráðuneyti leita einnig aðstoðar sjómælingasviðs.

Sjókort er aldrei fullbúið enda eru hafstraumar sífellt að verki og móta strönd og hafsbotn. Eftir prentun sjókorts bera skipstjórnarmenn, hver á sínu skipi, ábyrgð á að uppfæra sjókortið samkvæmt nýjustu upplýsingum sem birtast í Tilkynningum til sjófarenda, jafnt erlendum sem íslenskum.


Á ofangreindri mynd má sjá blálitað það svæði sem mælt hefur verið við
strendur landsins og eins og sjá má þá eru mjög stór strandsvæði sem
eftir er að mæla auk þess sem lítið hefur verið mælt lengra frá ströndinni.
Einnig þarf að endurmæla hluta svæðisins vegna breyttra krafna.

 

Alþjóðlegar skuldbindingar

Ísland gerðist aðili aðalþjóðlegum samtökum sjómælingastofnana, International Hydrographic Organization (IHO)1957 http://www.iho.int. IHO sendir frá sér staðla og er þeim fylgt við gerð íslenskra sjókorta.

Mikilvægi sjómælinga sjást meðal annars á því að alls eru 80 ríki aðilar að IHO af þeim 151 ríkjum sem hafa strandlengju. Þar með hafa 80 ríki viðurkennt og staðfest mikilvægi sjómælinga sem undirstöðutriði hvað snertir sjóflutninga og annað það er tengist nýtingu og verndun sjávar. Þar spilar IHO stóran þátt sem áræðanleg og hæf alþjóðleg samtök á sviði sjómælinga sem viðurkennd eru af Sameinuðu þjóðunum. IHO setur lágmarkskröfur um nákvæmni mælinga s.s. staðsetningu, dýpis-, flóðs- og hljóðhraðamælingum. Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um „Öryggi mannslífa á hafinu“ (Safety of Life at Sea, SOLAS) skuldbindur strandríki til að framkvæma sjómælingar, gefa út sjókort og önnur sjóferðagögn ásamt því að halda þeim uppfærðum. Jafnframt ber að tryggja sjófarendum aðgang að öllum hugsanlegum öryggisupplýsingum.

Landhelgisgæsla Íslands er fulltrúi Íslands innan IHO hvað varðar sjómælingar og sjókortagerð og þarf að sinna ýmsum skildum er varðar þátttöku í IHO. Auk aðildar að IHO er Landhelgisgæslan aðili að North Sea Hydrographic Commission og Nordic Hydrographic Commission.

 

* Sjómælingar Íslands er gamalt heiti á sjómælingasviði LHG og er notað á allar útgáfur sjómælingasviðs.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica