Skip og bátar

Skip og bátar

Varðskip Landhelgisgæslunnar sinna mikilvægu hlutverki við öryggis- og löggæslu á Íslandsmiðum. Þá eru þau þýðingarmikil björgunar- og mengunarvarnatæki.



Freyja

Smíðað í Suður-Kóreu árið 2010

Í mars 2021 tilkynnti Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, að ráðist yrði í kaup á varðskipi fyrir Landhelgisgæslu Íslands sem kæmi í stað varðskipsins Týs. Þá var jafnframt ákveðið að skipið myndi bera nafnið Freyja, en skip og loftför Landhelgisgæslunnar hafa í gegnum tíðina sótt nöfn sín í norræna goðafræði. Í apríl 2021 var efnt til útboðs og að því loknu var tilboði tekið í skip sem smíðað var í Suður-Kóreu árið 2010 og nýtt sem þjónustuskip fyrir olíuiðnaðinn. Kaupverðið nam rúmum 1,8 milljörðum króna.

 

  • Vartdskipid-Freyja

Landhelgisgæslan og dómsmálaráðuneytið tóku í sameiningu þá ákvörðun að heimahöfn varðskipsins Freyju yrði Siglufjörður. Með auknum skipaferðum um norðurslóðir fjölgar ferðum stórra flutninga- og olíuskipa með austur- og norðurströndum Íslands. Útlit er fyrir að ferðum skemmtiferðaskipa fjölgi einnig og þarf ekki að fjölyrða um þær ógnir sem lífríkinu er búin ef hætta steðjar að. Klukkustundir til eða frá geta þá skipt sköpum. Með Þór í Reykjavík og Freyju á Siglufirði hefur viðbragðsgeta Landhelgisgæslunnar umhverfis landið verið aukin og hægara verður um vik að tryggja öryggi sjófarenda, landsmanna og auðlinda í hafi.

Skipið kom til landsins þann 6. nóvember 2021 þegar það lagðist að bryggju á Siglufirði. Varðskipið Freyja er að miklu leyti sambærilegt varðskipinu Þór hvað stærð og aðbúnað varðar en býr yfir meiri dráttargetu.

Með tilkomu Freyju í flota Landhelgisgæslunnar hefur Landhelgisgæslan á að skipa tveimur afar öflugum varðskipum, sérútbúnum til að sinna löggæslu, leit og björgun á krefjandi hafsvæðum umhverfis Ísland. 

Freyja12

 Hér má sjá þegar Freyja sigldi frá Rotterdam þann 2. nóvember 2021.


Freyja leggur af stað frá Rotterdam