Fréttayfirlit: mars 2009 (Síða 2)

Nýr vinnuhópur á sviði tækni tekur til starfa innan NACGF

NACGF_RagnaArnadottir
Ráðstefna vinnuhópa North Atlantic Coast Guard Forum, samtaka strandgæslustofnana á Norður Atlantshafi var sett af Rögnu Árnadóttur, dómsmálaráðherra á þriðjudag. Ráðstefnunni lýkur á fimmtudag en um hundrað og fjörutíu manns frá tuttugu aðildarþjóðum sækja ráðstefnuna og taka þátt í vinnuhópum samtakanna. Rússar, Bandaríkja- og Kanadamenn eiga aðild að samtökunum auk sautján Evrópuþjóða.

Nýr vinnuhópur tók til starfa á ráðstefnunni sem fjallar um búnað og tækniþekkingu. Markmið hópsins er að fjalla um tæknibúnað sem notaður er á sviði strandgæslu og skiptast á upplýsingum sem varða tækniþróun og þarfagreiningu. Slík samvinna hefur mjög mikla þýðingu fyrir litlar þjóðir sem Ísland, sem ekki hafa getu til að reka sérstakar tækni og áætlanadeildir.

Ráðstefna North Atlantic Coast Guard Forum í Reykjavík

NACGF_logo
Ráðstefna vinnuhópa North Atlantic Coast Guard Forum (NACGF) hefst í Reykjavík þriðjudaginn 10. mars. North Atlantic Coast Guard Forum eru samtök strandgæslustofnana á Norður Atlantshafi.  Um hundrað og fjörutíu  manns frá tuttugu aðildarþjóðum taka þátt í  ráðstefnunni sem verður haldin á Radisson SAS Hótel Sögu. Georg Kr. Lárussonar forstjóri Landhelgisgæslunnar er formaður samtakanna en hann tók við af Nils Wang admírál hjá danska flotanum á aðalfundi samtakanna sl. haust.  

TF-GNA sækir fótbrotinn mann í Esju

Þyrla Landhelgisgæslunnar TF-GNA sótti í gærkvöldi fótbrotinn mann í Esju. Kom björgunarsveitarmaður að slysstaðnum sem mat aðstæður á þann veg að nauðsynlegt væri að bera hinn slasaða 100-200 metra neðar til að þyrlan nái að hífa hann upp. Stjórnstöð LHG kallaði þyrluvaktina út kl. 18:50 og lenti TF-GNA með hinn slasaða við Borgarspítalann um kl. 20:25.

TF-SYN í ískönnunarflug

hafis 160407

Í dag fór flugvél Landhelgisgæslunnar TF-SYN í ískönnunarflug úti fyrir Vestfjörðum. Kl. 1211 var komið að nýmyndun hafíss á stað 67-20N-025-50V og henni fylgt til SV. Hin eiginlega hafísrönd sást ekki, eingöngu var um nýmyndun að ræða og náði um 10 sjómílur austan við línu á kortinu. Sjá pdf. skjal.

Stjórnstöð LHG hélt Mjófirðingum í sambandi við umheiminn

Vaktstod_siglinga13110070001
Á fimmtudag urðu Mjófirðingar símsambandslausir þegar kom upp bilun í örbylgjukerfi Mílu á Austurlandi. Stjórnstöð LHG varð tengiliður Mjófirðinga við umheiminn þegar þeir báðu um að halda sambandi með talstöð sem staðsett er í báti á Mjóafirði. Talviðskiptin fóru fram í gegn um loftskeytastöðina (VHF R26 Goðatindur) á meðan þetta ástand varði.  Erfitt var að komast til viðgerðar vegna óveðurs á svæðinu.

Eftirlitsflug TF-SYN um syðri hluta IEEZ

Kort_syn040309
Flugvél Landhelgisgæslunnar TF-SYN fór í eftirlitsflug um syðri hluta efnahagslögsögunar í dag. Flogið var yfir skip á gulldepluveiðum og kallað var í Hoffell SU-80. Aðspurður sagði hann aflabrögð dræm en hálfgerð bræla væri búin að vera á slóðinni og er torfan ennþá á suðurleið en skipin eru um 170 sjómílur SSV af Vestmannaeyjum. Höfð voru afskipti af flutningaskipinu MONTREAL EXPRESS og olíuskpinu HS TOSCA.

Danska varðskipið Ejnar Mikkelsen í Reykjavíkurhöfn

EjnarMikk

Danska varðskipið EJNAR MIKKELSEN P 571 kom til Reykjavíkur sl. laugardag en skipið er systurskip varðskipsins KNUD RASMUSSEN P 570 sem heimsótti LHG í september sl. og var þá opið almenningi. Skipin eru nýjustu skip danska flotans og sérstaklega ætluð til siglinga á hafísslóðum.   Um borð er 12 m langt björgunarskip sem sjósett er úr skutrennu skipsins (SAR vessel). Var björgunarskipið SAR 2 prófað í Reykjavíkurhöfn í dag.

TF-GNA í sjúkraflug á Kirkjubæjarklaustur og Höfn

Gná - móttökuathöfn í flugskýli 7.6.07
Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst kl. 09:34 beiðni frá Fjarskiptamiðstöð lögreglunnar (FML) um aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar TF-GNA vegna bílslyss sem varð við Kirkjubæjarklaustur. Flugtak þyrlunnar var kl. 10:32. Slysið varð um 5 km austan við Jökulsárlón og voru fimm manns í bifreiðinni, þrír komust úr bílnum en tveir voru fastir. Sjúkrabifreið flutti eina konu með höfuðáverka að Kirkjubæjarklaustri þar sem þyrlan tók við hinni slösuðu.
Síða 2 af 2