Fréttayfirlit: apríl 2013

Yfirmenn norsku strandgæslunnar á fundi með LHG

_33A6285

Í dag fór fram fundur Landhelgisgæslunnar  með yfirmönnum norsku strandgæslunnar, Commodore Lars Saunes og Commander sg Yngve Kristiansen. Farið var yfir verkefni sem framundan eru í samvinnu strandgæslanna, s.s. æfingar, upplýsingamiðlun og greiningu,  þjálfunarmál og starfsmannaskipti. Einnig fengu þeir kynningu á starfsemi stjórnstöðvar, flugdeildar og varðskipsins Þórs.

TF GNA væntanlega flughæf fyrir helgina

GNA1_haust2012

Eftir flutning á TF-GNA til Reykjavíkur síðastliðinn laugardag var þegar hafist handa við viðgerð. Vel gekk að finna bilunina og bíður flugtæknideild Landhelgisgæslunnar nú eftir varahlutum frá Noregi en búist er við þeim til landsins á morgun.

TF-GNA komin til Reykjavíkur

Kvisker13

TF-GNA þyrla Landhelgisgæslunnar var í kvöld flutt með flutningabifreið frá Kvískerjum til Reykjavíkur og kom hún í flugskýli Landhelgisgæslunnar rétt fyrir klukkan tvö í nótt. TF-SYN flutti í dag mannskap og búnað að Kvískerjum til að undirbúa TF-GNA fyrir flutninginn og gekk framkvæmdin í alla staði mjög vel.

Þyrlur danska sjóhersins til aðstoðar Landhelgisgæslunni, ef þörf krefur

_MG_7183

Danska herskipið Triton kom til hafnar í Reykjavík í morgun. Fulltrúar Landhelgisgæslunnar fóru um borð til viðræðna við skipherrra skipsins til að athuga hver staðan væri með Lynx þyrlu sem er um borð og flogið er af flugmönnum danska flughersins. Þar kom í ljós að þyrlan er klár til útkalls og mun Landhelgisgæslan njóta aðstoðar danska sjóhersins vegna viðbragðs á þyrlur fram í miðja næstu viku.

Samæfing íslenskra viðbragðsaðila með björgunarsveit breska flughersins

GNA2

Samæfing íslenskra viðbragðsaðila með björgunarsveit breska flughersins fer fram á Langjökli og í Borgarfirði um helgina. Meginmarkmið æfingarinnar er að þjálfa bresku sveitina í fjallabjörgun og undirbúa íslenska viðbragðsaðila fyrir flugslys hervéla á Íslandi.

Gná, þyrla Landhelgisgæslunnar verður fyrir austan fram yfir helgi

SYN_Hornafirdi

Landhelgisgæslan hefur tekið ákvörðun um að Gná, þyrla Landhelgisgæslunnar verði á Kvískerjum fram yfir helgi en í dag munu blöðin verða tekin af þyrlunni og þau send með flutningabíl til Reykjavíkur. Eftir að hafa metið stöðuna til hlítar var ákveðið að klára reglubundna skoðun þyrlunnar Líf hið fyrsta og að henni lokinni hefjist vinna við Gná. Talsvert verkefni er að flytja þyrluna til Reykjavíkur en ekki er hægt að vinna að viðgerð þyrlunnar á staðnum.

Bilun kom upp í þyrlu LHG á leið í útkall.

GNA1_haust2012

Bilun kom upp í Gná, þyrlu Landhelgisgæslunnar, þegar hún var á leið í útkall kl. 14:37 í dag og varð tafarlaust að lenda þyrlunni. Að sögn flugstjóra gekk lending vel og eru allir heilir á húfi. Ingibjörg, björgunarskip SL á Höfn í Hornafirði var þá kallað út og sótti það veikan skipverja um borð í fiskiskip sem staðsett var um 10 sjómílur frá landi. Þyrlunni var lent í nágrenni Hornafjarðar og bíður nú þyrluáhöfnin  eftir að þyrlan Syn komi á staðinn með flugvirkja og verður ástand þyrlunnar þá metið.

Eftirlit- og gæsla um Suðaustur-, Austur og Norðausturmið

SIF4_AS

TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar fór í gær í eftirlits- og gæsluflug um Suðaustur-, Austur- og Norðausturmið og kannaði umferð báta og skipa á svæðinu.

Gæslu- og eftirlitsflug um Faxaflóa og Breiðafjörð

GNA2

TF-SYN, þyrla Landhelgisgæslunnar fór í gær í gæslu- og eftirlitsflug um Faxaflóa og Breiðafjörð. Flogið var yfir skyndilokun og reglugerðarhólf á svæðinu.

Fiskiskip varð vélarvana við Dalatanga

Ramona

Landhelgisgæslunni barst kl. 21:03 aðstoðarbeiðni á rás 16 frá fiskiskipinu Ramónu ÍS sem var með bilaða vél við Dalatanga. Flutningaskipið Green Ice C6SO4 sem var á svæðinu bauð samstundis fram aðstoð og var fiskiskipinu ráðlagt að þiggja hana þar til björgunarskip kæmi á staðinn.

Þyrla LHG sækir slasaðan vélsleðamann í Glerárdal

SYNAkureyri4

Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti síðdegis í dag vélsleðamann sem slasaðist í Glerárdal og flutti hann á sjúkrahúsið á Akureyri. Þyrlan var stödd á Norðurlandi þegar aðstoðarbeiðnin barst Landhelgisgæslunni en hún tók í dag þátt í flugslysaæfingu sem fór fram á Langanesi.

TF-SIF sækir sjúkling til Færeyja

SIF_MG_1474

Landhelgisgæslunni barst rétt fyrir kl. 17:00 beiðni frá yfirvöldum í Færeyjum um að flugvél Landhelgisgæslunnar myndi sækja alvarlega veikan einstakling til Voga í Færeyjum og flytja hann til Reykjavíkur. TF-SIF fór í loftið rétt fyrir kl. 19:00 í kvöld og er flug á staðinn áætlað um tvær klukkustundir. Reiknað er með að flugvélin snúi aftur um miðnætti og verður þá sjúklingurinn fluttur á Landspítalann.

Umferð á sjó eykst með batnandi veðurfari

_MG_0659

Samkvæmt upplýsingum stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar hafa 300-400 skip og bátar verið á sjó innan lögsögu Íslands síðastliðna daga, þar af einn norskur og tveir færeyskir línubátar. Greiningardeild hefur haft samband við skip og báta vegna lögskráningar og haffæris.

Varðskipið Ægir vísar fiskiskipi til hafnar

IMG_2589_fhdr

Skipstjórnarmenn á greiningarsviði Landhelgisgæslunnar urðu þess varir í morgun að fiskiskip,  sem statt var undan Norðurlandi, var bæði haffærislaust og með lögskráningarmál áhafnar í ólagi. Varðskipið Ægir, sem statt var á svæðinu, var sent til eftirlits um borð í skipið og bar eftirgrennslan þeirra saman við upplýsingakerfi Landhelgisgæslunnar og var skipinu vísað til hafnar

Hefur starfað samfellt í 45 ár hjá Gæslunni

SSK_Graenland

Um þessar mundir eru 45 ár liðin síðan Sigurður Steinar Ketilsson, skipherra á varðskipinu Þór hóf störf hjá Landhelgisgæslunni. Sigurður Steinar var lögskráður háseti á varðskipinu Maríu Júlíu þann 13. apríl 1968 þegar Höskuldur Skarphéðinsson var skipherra og hefur hann síðan starfað óslitið hjá Landhelgisgæslunni, bæði innan varðskipa- og flugdeildar.

Sprengjusérfræðingar eyddu Pikrinsýru sem var orðin sprengifim

Pikrinsyra

Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar voru í dag fengnir til að eyða talsverðu magni af Pikrinsýru sem var útrunnin og því hættuleg. Pikrinsýra (picrid acid) er notuð á rannsóknastofum og verður efnið að sprengiefni þegar það er í þurru ástandi. Sprengjusérfræðingar LHG gerðu efnið öruggt til flutnings og var það síðan fært til eyðingar.

Síða 1 af 2