Fréttayfirlit: september 2014 (Síða 2)

Þyrlan TF-SYN flaug með vísindamenn og almannavarnir að Bárðarbungu og Holuhrauni

Fimmtudagur 11. september 2014

TF-SYN, þyrla Landhelgisgæslunnar flaug í dag með menn frá Jarðvísindastofnun, Veðurstofu og Almannavörnum á Bárðarbungu og Kverkfjöll til að setja niður mæla og vinna við ýmsan búnað. Að vinnu lokinni var flogið yfir Dyngjujökul og Holuhraun.

Yfirhershöfðingi Atlantshafsbandalagsins í Evrópu heimsótti Landhelgisgæsluna

Yfirhershöfðingi Atlantshafsbandalagsins(NATO) í Evrópu, SACEUR Philip M. Breedlove, heimsótti í dag Landhelgisgæslunaí Keflavík ásamt fylgdarliði og fulltrúum utanríkisráðuneytisins. Jón B. Guðnason, framkvæmdastjóri lofthelgis- og öryggismálasviðs og Auðunn F. Kristinsson, starfandi framkvæmdastjóri aðgerðasviðs tóku á móti honum ásamt samstarfsmönnum.

Þyrla LHG bjargaði ferðamanni úr þverhníptu klettabelti

TF-LIF_8625_1200

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út kl. 18:37 í gærkvöldi að beiðni fjarskiptamiðstöðvar RLS vegna ferðamanns í sjálfheldu efst í Ófeigsfjalli á Reyðarfirði. Maðurinn var í 900-1000 metra hæð í þverníptu klettabelti.TF-LIF fór í loftið frá Reykjavík kl. 19:19  með þrjá undanfara Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.

Umfangsmiklar aðgerðar Landhelgisgæslunnar um liðna helgi vegna strands Akrafells

Björgunaraðgerðir Landhelgisgæslunnar vegna strands flutningaskipsins Akrafells síðastliðinn laugardag voru afar umfangsmiklar og kom fjöldi manna úr nánast öllum deildum Landhelgisgæslunnar að málum.   Var samvinna og liðsheild starfsmanna einstök og sýndu viðbrögð þeirra að starfsmenn Landhelgisgæslunnar eru tilbúnir að gera það sem þarf til að bregðast við á ögurstundu í stóru sem smáu. 

Akrafell afhent eigendum skipsins og hafnaryfirvöldum

Fjölveiðiskipið Aðalsteinn Jónsson SU frá Eskifirði dró í nótt flutningaskipið Akrafell til hafnar, í fylgd varðskipsins Ægis. Auk þeirra tóku lóðsbáturinn Vöttur og Hafbjörg, björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Neskaupstað þátt aðgerðum. Ástandið er talið stöðugt og hefur skipið nú verið afhent eigendum sem eru Samskip og hafnaryfirvöld á Eskifirði.

Akrafell losnaði af strandstað á háflóði

Akrafell, flutningaskip Samskipa losnaði um miðnætti af strandstað við Vattarnes á milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar. Fjölveiðiskipið Aðalsteinn Jónsson SU er með skipið í togi og er áætlað að sigla með það til hafnar á Reyðarfirði. Varðskipið Ægir fylgir skipunum eftir til hafnar og verður til taks ef á þarf að halda.

Hugsanlegt að Akrafell losni á háflóði um miðnætti

Verið er að skoða möguleikann á að ná Akrafelli, flutningaskipi Samskipa af strandstað í kvöld. Fimm varðskipsmenn eru auk skipstjóra um borð í skipinu og björgunaraðilar viðbúnir því að skipið losni af strandstað á háflóði sem er í kringum miðnætti.

Köfurum tókst að loka fyrir streymi inn í vélarrúm Akrafells. Engin mengun greindist í flugi TF-SIF.

NC2009_WEEKEND_DIVE_DOUG_ELSEY_PHOTO__42

Talið er að köfurum Landhelgisgæslunnar hafi tekist að loka fyrir streymi inn í vélarrúm flutningaskipsins Akrafells. Virðast dæling nú loks bera árangur. Kafararnir köfuðu inn í vélarrúmið mjög erfiðar aðstæður. Vinna nú kafarar að því að rannsaka botn skipsins utan frá. TF-SIF flaug yfir svæðið í dag og er engin mengun sjáanleg.

Varðskipið Þór undirbýr brottför frá Reykjavík til aðstoðar við björgun flutningaskipsins Akrafells.

Nú er nýlokið samráðsfundi Landhelgisgæslu, Umhverfisstofnunar, Samgöngustofu og Samskipa þar sem ákveðin voru næstu skref vegna strands flutningaskipsins Akrafells við Vattarnes. Unnið er að brottför varðskipsins Þórs frá Reykjavík og er áætlað að hann komi á strandstað um miðjan dag á morgun Þór tekur þá við vettvangsstjórn af varðskipinu Ægir sem og dráttartaug sem nú er yfir í fjölveiðiskipið Aðalsteinn Jónasson SU. 

Þyrlu LHG snúið í útkall við Hornafjörð

Þyrla Landhelgisgæslunnar TF-SYN sem var á leiðinni til Reykjavíkur eftir að hafa flutt mannskap á strandsstað flutningaskipsins Akrafells hefur nú verið kölluð út til aðstoðar við björgun konu sem slasaðist þegar hún féll í hlíðum Geitafells norður af Hornafirði. Þyrlan er nú á vettvangi og vinnur að undirbúningi konunnar fyrir flutning.

Varðskipið Ægir komið á strandstað - TF-SIF mun rannsaka svæðið með mengunargreiningarbúnaði

Varðskipið Ægir er nú komið á strandstað Akrafells við Reyðarfjörð og er unnið að því að flytja dælur yfir skipið. Engin mengun er sjáanleg en flugvél Landhelgisgæslunnar TF-SIF mun fljúga yfir svæðið eftir hádegi til að safna upplýsingum með mengunargreiningarbúnaði flugvélarinnar. Kafarar munu þá einnig gera vettvangskönnun á skipinu.

Ekki er sjáanleg mengun á strandstað Akrafells - Varðskipið Ægir væntanlegt um hádegi

Landhelgisgæslan hélt í morgun fund með fulltrúum Umhverfisstofnunar, Samskipa og Samhæfingarstöðvar þar sem farið var yfir stöðuna vegna strands flutningaskipsins Akrafells. Talsverður sjór er í vél skipsins og hefur skipið misst allt vélarafl og rafmagn. Dælur hafa ekki undan og er unnið að því að útvega fleiri dælur. Ekki er sjáanleg mengun frá skipinu.

Flutningaskip strandaði við Vattarnes, milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar

Akrafell, flutningaskip Samskipa, strandaði á skeri við Vattarnes, á milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar skömmu fyrir klukkan fimm í morgun. Mikill leki kom að skipinu við strandið. Skipið er 137 metra langt. Allar björgunarsveitir á Austfjörðum voru kallaðar út auk varðskips og þyrlu Landhelgisgæslunnar. Einnig var slökkvilið Reyðarfjarðar sem kallað var út vegna mengunarhættu.  Umhverfisstofnun hefur virkjað neyðaráætlun vegna hættu á umhverfisspjöllum.

Mikið að gera hjá TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar

TF-SIF flugvél Landhelgisgæslunnar og áhöfn hennar hafa fylgst náið með þróun mála við Bárðarbungu, Dyngjujökul og Holuhraun frá því að vélin var kölluð heim úr erlendum verkefnum þann 19. ágúst síðastliðinn. Síðan hefur flugvélin farið fjölda fluga með vísindamenn þar sem safnað hefur verið ómetanlegum gögnum með ratsjár og eftirlitsbúnaði flugvélarinnar. Nú er framundan nauðsynlegt viðhald  sem ekki var mögulegt að sinna meðan flugvélin var í erlendum verkefnum.

TF-LÍF fór í útkall til Vestamannaeyja

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út kl. 17:23 eftir að alvarlegt slys varð í Vestmannaeyjum. TF-LÍF fór í loftið sautján mínútum síðar eða kl. 17:40 og var lent á flugvellinum í Vestmannaeyjum kl 18:13. Hinn slasaði var fluttur um borð í þyrluna sem fór að nýju í loftið kl 18:34 og var lent við Landspítalann í Fossvogi kl 19:54. 

Gosmökkur frá Holuhrauni náði upp í 15 þúsund fet

TF-SIF flugvél Landhelgisgæslunnar flaug í dag yfir gosstöðvarnar í Holuhrauni með vísindamenn Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands. Þar sást hraun renna í ANA um 3,5 km frá miðju gosinu og var sú tunga um 500 metra breið. Gossprungan var virk á um 600 metrum.Þegar flogið var yfir kl 15:15 náði gosmökkurinn frá 6300 fetum upp í 15000 fet.

Síða 2 af 2