Ratsjárgervitunglamyndir notaðar við skipulagningu eftirlits á hafinu

  • ratsjargervitunglamynd_mai_2007

Þriðjudagur 15. maí 2007.

Landhelgisgæslan notar ratsjárgervitunglamyndir til að skipuleggja eftirlit með skipaferðum umhverfis landið.

Landhelgisgæslan hefur undanfarin ár gert tilraunir með notkun gervitunglamynda við skipulagningu hefðbundins eftirlits á hafinu umhverfis Ísland.

Fyrr á þessu ári gerði Landhelgisgæslan samning við erlenda aðila um kerfisbundna töku gervitunglamynda af hafsvæðinu umhverfis landið sem nýttar verða til að skipuleggja hefðbundið eftirlit Landhelgisgæslunnar með varðskipum og loftförum og til að styðja við það.

Skipin sem sjást á gervitunglamyndinni eru borin saman við upplýsingar úr fjareftirlitskerfunum í vaktstöð siglinga/stjórnstöð LHG og við aðrar upplýsingar um ferðir skipa sem þar er að finna.  Ef skip sem ekki eru í fjareftirliti og hafa ekki tilkynnt sig til vaktstöðvar siglinga sjást á gervitunglamyndinni er ástæða til að athuga ferðir eða athafnir þess nánar. 

Landhelgisgæslan hefur eftirlit með fiskiskipum og allri skipaumferð í íslensku efnahagslögsögunni en jafnframt fara varðskipin reglulega til eftirlits á úthafsveiðisvæðum þar sem Íslendingar eiga hagsmuna að gæta, t.d. á samningssvæði NorðausturAtlantshafsfiskveiðiráðsins (NEAFC).

Gervitunglamyndirnar nýtast þannig bæði við skipulagningu eftirlits innan efnahagslögsögunnar og einnig á úthafsveiðisvæðum.  Landhelgisgæslan fyrirhugar að eiga náið samstarf við NEAFC í sumar við úrvinnslu gervitunglamyndannna.

Nýlega var meðfylgjandi gervitunglamynd tekin af hafinu milli Íslands og Færeyja.  Við skoðun myndarinnar kemur í ljós að ekkert skip virðist vera í svokölluðum línudansi og Landhelgisgæslan var fyrir með upplýsingar um öll skipin.

ratsjargervitunglamynd_mai_2007

Dagmar Sigurðardóttir
lögfræðingur/upplýsingaftr.