Aukasýningar á Gyðjunni í vélinni
Sýningar á Gyðjunni í vélinni í varðskipinu Óðni hafa gengið mjög vel við mikla hrifningu sýningargesta og hefur verið nær uppselt á allar sýningar. Af þeim sökum hefur verið bætt við þremur aukasýningum nú í vikunni, miðv. 23. , fimmtud. 24. og föstud. 25. maí. Uppselt er á sýninguna á föstudaginn. Sýningar hefjast kl. 20.00 og miðasala fer fram á www.listahatid.is eða að Lækjargötu 3b ( á bakvið Humarhúsið, gengið inn frá Skólastræti).
Á vefútgáfu Tímarits Máls og menningar er fjallað um leiksýninguna ( www.tmm.is, sjá Gyðjur og snillingar) og þar segir:
„Vatnadansmeyjafélagið Hrafnhildur leggur undir sig sjálft varðskipið Óðin á Listahátíð og sýnir þar fjölbragðasýninguna Gyðjuna í vélinni. Þetta karlavígi er allt lagt undir kvenleikann, neðan úr lest og upp í brú, og mætti una lengi við að skoða listrænar innsetningar í káetum, klósettum, sjúkrastofum, forsetasvítu og ótal öðrum vistarverum skipsins, rannsaka margræðar styttur Höllu Gunnarsdóttur og upplifa lifandi leikþætti og aðra á myndböndum og hljóðböndum sem maður verður fyrir á leið sinni um iður Óðins. En skipsfreyjur sem leiðsegja gestum ýta þeim blíðlega dekk af dekki uns endahnykkurinn sættir mann við að yfirgefa skipið.
Hugmyndin að Gyðjunni í vélinni er snjöll en framkvæmdin jaðrar við kraftaverk. Ekki að undra þótt upp undir hundrað manns hafi komið að þessum viðamesta gjörningi Íslandssögunnar. Ekki missa af honum.“
Landhelgisgæslan vill hvetja alla sem áhuga hafa að láta þetta einstaka tækifæri ekki fram hjá sér fara.