Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar við mannúðarstörf í Líbanon á vegum Íslensku friðargæslunnar

  • Líbanon 2007

Miðvikudagur 13. júní 2007.

Sprengjusérfræðingar frá Landhelgisgæslunni ásamt bráðatæknum frá Slökkviliði Reykjavíkur komu nýlega heim til Íslands eftir 3 mánaða verkefni í suðurhluta Líbanon.

Marvin Ingólfsson sprengjusérfræðingur tók saman eftirfarandi frásögn um starfið í Líbanon en grein um það birtist einnig í Morgunblaðinu í dag. Frásögn Marvins fer hér á eftir:

Um var að ræða verkefni á vegum Íslensku Friðargæslunnar í samstarfi við SRSA (Swedish Rescue Service Agencie) og UN (United Nations) við sprengjueyðingu. Í því felst að eyða ósprengdum sprengjum sem almenningi stafar hætta af. Um er að ræða sprengjur úr stríðinu sem geisaði á síðasta ári en mjög algengt er að þær virki ekki sem skildi og þá eru þær oft viðkvæmari og hættulegri en ella. Ósprungnar sprengjur sem liggja á víð og dreif hafa valdið mörgum dauðsföllum og slysum í Líbanon. Bæði óbreyttir borgarar við sín daglegu störf og hermenn sem vinna við sprengjueyðingu hafa orðið fyrir barðinu á þeim.

Teymið sem Íslendingarnir voru í var með höfuðstöðvar í hafnarborginni Tyrus sem er á suðvesturströnd Líbanon. Verkefnum var úthlutað frá höfuðstöðvum UN (UN Landmine Action Centre í Tyrus).  Verkefnin voru fjölbreytileg og aðstæður misgóðar. Dæmi um verkefni voru t.d. að eyða 500 kílóa flugvélasprengju, fastri í klöpp á 11 metra dýpi, eyða tvö hundruð gramma klasasprengju á appelsínuakri eða uppi á húsþaki í miðjum bæ. Landslagið er erfitt fyrir vinnu af þessu tagi því mikið er af ólífu, banana og appelsínuökrum á svæðinu og því erfitt eða jafnvel ómögulegt að koma auga á sprengjurnar. Klasasprengjurnar geta leynst víða á þessum svæðum og því nauðsynlegt að gæta sín í hverju skrefi.  Sérþekking á sprengjueyðingu og góð skipulagning er nauðsynleg til að forða slysum og dauðsföllum við eyðingu slíkra sprengja.

Þegar sprengjusérfræðingur kemur að sprengju byrjar hann á að aftengja hana svo hægt sé að færa hana á öruggan stað og eyða henni. Það er gert með því að fjarlægja kveikjuþráðinn eða gera hann óvirkan en við það er notaður sérstakur búnaður og aðferðir.  Í sumum tilfellum er ekki hægt að færa sprengjuna vegna aðstæðna eða gerðar hennar og þarf því að eyða henni á staðnum. Á meðan á þessu stendur þarf yfirleitt til öryggis að rýma stór svæði.  Nauðsynlegt getur verið að flytja fjölda fólks þegar sprengjan er staðsett í miðjum bæ eða borg og það getur valdið talsverðri röskun þegar fólkið þarf að vera frá heimilum sínum á meðan sprengjunni er eytt.  Af þeim sökum getur verið talsverður þrýstingur á sprengjusérfræðingana að ljúka verkinu fljótt og örugglega svo fólkið komist til síns heima sem fyrst.  

Starfið í Líbanon gekk vonum framar og var samstarfið við hinar þjóðirnar afar gott.  Teymið öðlaðist mikla reynslu og þekkingu á meðan á verkinu stóð. Mikið af sprengjukúlum, flugvélasprengjum, tálbeytublysum, þúsundum af klasasprengjum ásamt fleiru var eytt án þess að nein slys eða óhöpp ættu sér stað.

Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar sem tóku þátt í þessu starfi og samstarfsmenn þeirra tóku margar myndir í Líbanon og er hluti þeirra birtur hér.

Marvin Ingólfsson
sprengjusérfræðingur


Líbanon 2007
500 kílóa sprengja grafin upp.

Líbanon 2007
Marvin og Jónas með flugvélasprengjuna, 500 kg.

Líbanon 2007
Aðstæður geta verið afar erfiðar.

Líbanon 2007
Borgar sig ekki að vera skjálfhentur.

Líbanon 2007
Gert klárt fyrir eyðingu.

Líbanon 2007
Hluti af íslenska liðinu.

Líbanon 2007
Klasasprengja.

Líbanon 2007
Þykktin á sprengikúlu mæld.

Líbanon 2007
Nokkrar sekúndur í sprengingu.

Líbanon 2007
Sprengjan dregin á öruggari stað.

Líbanon 2007
Sprengjukúla.

Líbanon 2007
Verið að undirbúa eyðingu á klasasprengju.

Líbanon 2007
Klasasprengjur.