Áhöfnin á Syn stóð skipstjóra að meintum ólöglegum veiðum

  • Kort_syn040309

Miðvikudagur 20. júní 2007.

Áhöfnin á Syn, eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar, stóð skipstjóra á fiskibát að meintum ólöglegum línuveiðum inni í lokuðu hólfi 7,8 sjómílur norðvestur af Deild um hádegisbilið í gær. Skyndilokun á svæðinu hafði verið auglýst 15. júní sl. samkvæmt heimild í lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og gildir hún til 29. þessa mánaðar. Landhelgisgæslan sendi kæru til Lögreglustjórans á Vestfjörðum sem er nú með málið til meðferðar.

Skyndilokunum er ætlað að koma í veg fyrir skaðlegar veiðar. Skyndilokanir Hafrannsóknastofnunar eru auglýstar með því að senda þær út á upplýsingakerfi fyrir sjófarendur (NAVTEX) frá Vaktstöð siglinga/stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og á fjarskiptarásum. Einnig eru tilkynningar um nýjar skyndilokanir lesnar upp í næsta fréttatíma Ríkisútvarpsins og í fréttatíma á Rás 1 kl. 10 að morgni eru allar skyndilokanir í gildi lesnar upp. Þá eru þessar auglýsingar jafnframt birtar á vef Hafrannsóknastofnunar og hægt að fá upplýsingar um þær í vaktstöð siglinga allan sólarhringinn. 

Sjá auglýsingu um skyndilokun um bann við línuveiðum út af Deild á slóð Hafrannsóknastofnunar:
http://www.hafro.is/undir.php?ID=18&REF=3

Viðurlög við brotum af þessu tagi eru sektir og upptaka afla og veiðarfæra.  Viðurlögin eru misþung eftir því hversu alvarleg brotin eru og hvort um ítrekun er að ræða. 

Meðfylgjandi mynd er úr myndasafni Landhelgisgæslunnar.  Hún var tekin í síðasta túr varðskipsins Ægis en þá var haldin æfing með eftirlitsflugvélinni Syn.  Guðmundur St. Valdimarsson bátsmaður á varðskipinu Ægi er myndasmiðurinn.

Dagmar Sigurðardóttir
lögfræðingur/upplýsingaftr.

Ægir og Syn - æfing sumarið 2007