Mikill viðbúnaður vegna elds um borð í Hafsúlunni - 75 manns um borð
Þriðjudagur 26. júní 2007.
Allt tiltækt björgunarlið var kallað út á sjötta tímanum í gær vegna elds um borð í hvalaskoðunarskipinu Hafsúlunni. Sjötíu og fimm manns voru um borð en fljótlega tókst að slökkva eldinn og allt fór vel.
Vaktstöð siglinga/stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst neyðarkall frá hvalaskoðunarskipinu Hafsúlunni á fjarskiptarás16 um kl. 17:22. Skipið var þá statt við Lundey á Kollafirði með 75 manns um borð. Báðar þyrluvaktir Landhelgisgæslunnar voru strax ræstar út. Einnig voru kölluð út björgunarskip og bátar Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á höfuðborgarsvæðinu, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og hafnsögubátar Reykjavíkurhafnar sem eru búnir öflugum slökkvibúnaði. Áhöfnin á varðskipinu Tý heyrði neyðarkallið og tók skipið þegar stefnuna að vettvangi.
Fljótlega tilkynnti Hafsúlan að tekist hefði að slökkva eldinn um borð og að skipið héldi á annarri vélinni áleiðis til Reykjavíkurhafnar. Viðbragðsaðilar voru þó ekki afturkallaðir fyrr Hafsúlan var komin til hafnar kl. 17:42.
Björgunarþyrla Landhelgisgæslunnar, Gná, fór í loftið kl. 17:32 og fylgdi Hafsúlunni eftir þar til hún var komin örugg inn í Reykjavíkurhöfn. Athygli vekur hversu viðbrögð áhafnarinnar voru skjót en þyrlan fór í loftið 10 mínútum eftir útkall.
Dagmar Sigurðardóttir
lögfr./upplýsingaftr.

Úr myndasafni: Björgunarþyrlan Gná.