Þyrlan Steinríkur aftur leigð til Landhelgisgæslunnar

  • Steinríkur björgunarþyrla

Í fréttatilkynningu á heimasíðu dómsmálaráðuneytisins segir:

Ríkisstjórnin samþykkti föstudaginn 7. september tillögu Björns Bjarnasonar dóms- og kirkjumálaráðherra um að leigja þyrlu fyrir Landhelgisgæslu Íslands í stað þyrlunnar TF-SIF er ónýttist hinn 16. júlí sl. eftir nauðlendingu í sjónum við Straumsvík. Þyrlan er af gerðinni Super Puma og ber einkennisstafina LN-OBX. Hún var í notkun hjá landhelgisgæslunni árið 2006. Er þyrlan leigð af norska fyrirtækinu Airlift og er hún væntanleg til landsins í október.

Tillaga dóms- og kirkjumálaráðherra er byggð á því mati starfshóps um þyrlumál Landhelgisgæslu Íslands að með fjórum þyrlum, þ.e. tveimur Super Puma og einni Dauphin auk Airlift Super Puma þyrlunnar LN-OBX, ætti að vera tryggt að þyrla sé til taks alla daga ársins.

Áætlaður heildarkostnaður vegna leigu á LN-OBX til ársloka 2008 er 255 m.kr.

Áfram er unnið að undirbúningi kaupa á nýjum stórum og langdrægum björgunarþyrlum til landhelgisgæslunnar í samvinnu við Norðmenn og er við það miðað að þær fáist til afhendingar á árunum 2011-2014. Fram að þeim tíma leigir Landhelgisgæsla Íslands Eurocopter Super Puma og/eða Dauphin þyrlur til leitar- og björgunarflugs, svipaðar þeim sem landhelgisgæslan hefur rekið undanfarna rúma tvo áratugi.

Steinríkur björgunarþyrla
Úr myndasafni LHG: Steinríkur á flugi.