Almenn ánægja meðal þátttakenda á Northern Challenge

  • Northern Challenge 2007

Mánudagur 17. september 2007.

Sprengjueyðingaræfingin Northern Challenge 2007 stóð frá 28. ágúst til 7. september sl. Almenn ánægja var meðal þátttakenda í æfingunni en alls tóku 50 sprengjusérfræðingar þátt í henni auk 20 erlendra gesta og dómara.

Landhelgisgæslan skipulagði æfinguna með styrk frá Atlantshafsbandalaginu og mættu sprengjusérfræðingar víða að úr heiminum til að læra það nýjasta á þessu sviði. Æfingin fór fram innan og við nýja öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli. Áhersla var lögð á hryðjuverkasprengjur en á æfingunni voru sprengjusérfræðingar sem hafa starfað í Írak, Afganistan og fleiri stríðshrjáðum löndum.

Æfingin var bæði haldin á gamla varnarsvæðinu í Keflavík og að hluta til í Hvalfirði. Sveitarstjórnin í Hvalfjarðarstrandarhreppi kvartaði yfir því að hafa ekki verið látin vita af æfingunni. Svör Landhelgisgæslunnar við athugasemdum eru eftirfarandi:

Hluti æfingarinnar Northern Challenge 2007 fór fram í Hvalfirði, nánar tiltekið á svæði Hvals og gamla varnarsvæðinu. Eigendur þessara eigna gáfu leyfi fyrir að æfingin yrði haldin þar.

Æfingin sem haldin var í Hvalfirð er þess eðlis að menn töldu ekki þörf á að hafa samráð við aðra en landeigendur vegna hennar. Þetta er æfing í að eyða sprengjum en ekki að sprengja sprengjur. Notaðar eru æfingasprengjur, þ.e. ekki raunverulegar sprengjur. Ekkert hættulegt var á ferðinni og æfingin er á rólegu nótunum þar sem mestur tími fer í rannsóknir.

Eins og fram kom í fréttum, var lögð áhersla á fræðslu og mat á hæfni þáttakenda. Þess ber auk þess að geta að sprengjueyðing er mannúðarstarf. Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar hafa starfað á vegum Íslensku friðargæslunnar á stríðshrjáðum svæðum m.a. við að eyða sprengjum í og við hýbýli fólks svo að það geti lifað eðlilegu lífi í heimkynnum sínum.

Tilkynning um Northern Challenge var send fjölmiðlum 28. ágúst sl. þannig að fólkið í sveitinni og vegfarendur vissu af æfingunni. Landhelgisgæslan er hluti lögreglunnar í landinu og æfingar fóru fram á athafnasvæði sérsveitarinnar í Hvalfirði þar sem búast má við að slíkar æfingar séu haldnar.

Landhelgisgæslan hefur ekki spurt sveitarstjórnir um leyfi fyrir lendingu þyrlna eða siglingu varðskipa og það mun ekki verða gert. Hins vegar er sjálfsagt mál, verði æfingin aftur haldin í Hvalfirði, að tilkynna sveitarstjórninni um það með hæfilegum fyrirvara.

Meðfylgjandi myndir voru teknar á æfingunni:

Northern Challenge 2007

Northern Challenge 2007

Northern Challenge 2007

Northern Challenge 2007.

Northern Challenge 2007.

Northern Challenge 2007

Northern Challenge 2007

Northern Challenge 2007