Ný leiguþyrla LHG komin heim
Laugardagurinn 10. nóvember 2007
Í dag lenti ný leiguþyrla Landhelgisgæslunnar, LN-OBX, í Reykjavík eftir flug frá Förde í Noregi. Áhöfnin tók við vélinni í Förde sl. miðvikudag og gerði nauðsynlegar flugprófanir. Ráðgert hafði verið að hefja ferðina sl. fimmtudag en brottför frestaðist vegna veðurs þar sem vindur fór í 50 m/s hafinu milli Noregs og Færeyja. Ferðin hófst því í gær, föstudag. Snjókoma tafði brottför frá Förde en áhöfninni tókst að komast af stað og millilenti á Hjaltlandseyjum á leið sinni til Færeyja. Í Færeyjum tók Eiður Guðnason, ræðismaður Íslands höfðinglega á móti áhöfninni sem hafði næturdvöl í Þórshöfn áður en haldið var áleiðis til Íslands. Í dag var góður meðbyr og því tókst að fljúga til Reykjavíkur í einum áfanga og lenti þyrlan á Reykjavíkurflugvelli um kl. 15:30.
Þessi nýja vél er af gerðinni Super Puma AS332c en er flugdeild LHG vel kunn þar sem þessi sama vél var í leigu hjá Landhelgisgæslunni síðastliðinn vetur og gengur þar undir nafninu Steinríkur. Hún tekur við hlutverki TF-SIF.

Steinríkur og hans lið komnir heim
Áhöfnin, frá vinstri: Sigurður Ásgeirsson flugstjóri, Helgi Rafnsson flugvirki
og Lárus Helgi Kristjánsson flugmaður
Aðflug að Þórshöfn í Fæeyjum
Áhöfnin ásamt Eiði Guðnasyni, ræðismanni Íslands í Færeyjum
Eldsneytistaka í Færeyjum
Vetur yfir Norðursjó
Skýstrókur á Norðursjó
Troll olíuborpallurinn, sá stærsti í heimi
Myndir: Sigurður Ásgeirsson
SRS 10.11.2007