Ráðningu þyrluflugmanna lokið

  • TF_LIF_Odd_Stefan

Föstudagur 23. nóvember 2007

Nú nýverið lauk ráðningu á nýjum þyrluflugmönnum til Landhelgisgæslu Íslands. Ráðningin var síðasti liður í eflingu þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar í kjölfar brotthvarfs varnarliðsins. Hafa þá alls sjö þyrluflugmenn verið ráðnir til starfa, til stækkunar þyrlusveitarinnar. Þeir umsækjendur sem nú voru ráðnir heita; Andri Jóhannesson, Brynhildur Ásta Bjartmarz og Marion Andrée Simone Herrera.

Á síðastliðnu ári var gengið frá ráðningu Garðars Árnasonar, Jens Þórs Sigurðarsonar, Lárusar Helga Kristjánssonar og Walters Ehrat sem allir hafa þegar lokið þjálfun hjá flugdeild Landhelgisgæslunnar. Þess má til gamans geta að þetta er í fyrsta sinn sem konur ráðast til starfa sem þyrluflugmenn hjá Landhelgisgæslunni.

Eftir því sem næst verður komist er þetta í fyrsta skipti sem konur eru ráðnar í fullt starf sem þyrluflugmenn á Íslandi. Konur hafa þó verið áður í áhöfn þyrlna Landhelgisgæslunnar sem læknar. Nýju flugmannanna bíður nú strangt þjálfunarferli sem felur í sér þjálfun á Super Puma þyrlur og Dauphin þyrlu Landhelgisgæslunnar og ennfremur mikil þjálfun sem snýr að leit og björgun.

TF_LIF_Odd_Stefan
TF-LIF
Mynd: Odd Stefan


SRS 23.11.2007