Flutningaskipið Axel strandar við Hornafjarðarós

  • Flutnskip_Axel_strand_Hornafj_27112007

Þriðjudagur 27.nóvember. 2007

Klukkan 08:20 barst Vaktstöð siglinga/Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar boð vegna flutningaskipsins Axel sem strandað hafði á Borgeyjarboða við Hornafjarðarós. Björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Ingibjörg frá Hornafirði ásamt lóðsbáti Hornafjarðarhafnar fóru tafarlaust á staðinn.

Klukkan 08:24 tilkynnir Ingibjörg að skipið sé laust af skerinu. Verið er að kanna skemmdir á skipinu og skoða ástand olíutanka þar sem eitthvað virðist vera um olíuleka í sjó. Björgunarsveitarfólk er að koma olíugirðingu fyrir til að hefta hugsanlega olíumengun. Aðalvél skipsins er ekki gangfær og bógskrúfurými fullt af sjó.

Unnið er að því að koma dráttartógi frá lóðsbátnum Birni yfir í skipið til að draga það fjær ströndu. Ekki er hægt að draga skipið til hafnar á Hornafirði að svo stöddu sökum óhagstæðra sjávarfalla. Varðskip er á leið á staðinn og er væntanlegt undir hádegið.

Axel er 2500 tonna frystiskip, byggt árið 1989. Skráður eigandi þess er Dregg ehf en skipið er skráð á eyjunni Mön. Áhöfn skipsins, 11 manns, er öll íslensk.

Flutnskip_Axel_strand_Hornafj_27112007

SRS 27.11.2007