Flutningaskipið Axel

Miðvikudagur 28.nóvember 2007

Rétt fyrir klukkan 7:00 í morgun fór skipstjóri flutningaskipsins Axels fram á að fá öflugar dælur um borð í skipið þar sem lensidælur þess höfðu stíflast. Skipið var þá statt undan Vopnafirði. Björgunarskipið Sveinbjörn Sveinsson fór á staðinn með öflugar dælur frá slökkviliðinu á Vopnafirði. Gerðar voru ráðstafanir til að fá viðbótar dælur og hafnaryfirvöld á Vopnafirði sett í viðbragðsstöðu vegna hugsanlegrar komu skipsins. Vel gengur nú að dæla sjó úr skipinu og hefur það tekið stefnu á Akureyri. Varðskip mun koma að Axel um hádegisbil, með öflugar dælur og setja mannskap um borð. Varðskipið mun svo fylgja flutningaskipinu til hafnar.

Flutningaskipið Axel var skoðað við komuna til Fáskrúðsfjarðar í gær. Þegar kafarar Landhelgisgæslunnar skoðuðu skipið komu í ljós göt á skrokk þess sem þó voru aðeins inní lokuð rými í skipinu, þannig að ekki var talin hætta á að leki kæmist að lestum. Að undangenginni skoðun og samráði sérfræðinga var ákveðið að skipið skyldi halda til Akureyrar þar sem áætlað er að það fari í slipp.

Um klukkan 23:00 í gærkvöldi, þegar skipið var statt útaf Norðfjarðarflóa urðu skipverjar varir við leka í lestum skipsins. Björgunarskipið Hafbjörg var sent á staðinn með dælur og mengunargirðingar voru gerðar tiltækar. Einnig voru gerðar ráðstafanir til að taka mætti skipið til hafnar á Neskaupstað. Um miðnættið kom í ljós að dælur skipsins höfðu vel undan að dæla sjó úr lestunum sem reyndist ekki vera olíumengaður. Þá var skipinu haldið áleiðis til Akureyrar.

SRS 28.11.2007