Grunnskólabörn á Fáskrúðsfirði heimsækja varðskipið Tý

  • Tyr_born_Faskrudsf_heims_03122007

Þriðjudagur 4. desember 2007.

Nemendur í 1 – 3 bekk Grunnskólans á Fáskrúðsfirði heimsóttu varðskipið Tý á köldum vetrarmorgni, þegar skipið kom inn til Fáskrúðsfjarðar fyrir skömmu.

Alls komu 24 börn um borð ásamt 5 kennurum og foreldrum. Tekið var á móti börnunum við skipshlið. Þá var gengið á skipsfjöl þar sem skipherra varðskipsins Sigurður Steinar Ketilsson, Pálmi Jónsson yfirstýrimaður og Einar Örn Einarsson 2. stýrimaður tóku á móti þeim. Byrjuðu börnin á því að fara á þyrlupall og þar lærðu þau að heilsa íslenska fánanum með handarkveðju að hætti varðskipsmanna.

Þá var hópnum skipt í tvennt. Farið var í vélarrúm þar sem börnin skoðuðu vélarrúmið og fræddust um vélbúnaðinn. Eins var farið á stjórnpall og tæki og tól skoðuð og útskýrð. Fallbyssan var að sjálfsögðu skoðuð og vakti mikla hrifningu, aðallega í hópi drengjanna. Þá var farið niður i setustofu, þar sem hóparnir sameinuðust , og gæddu sér á ávaxtasafa og kexi, sem var vel þegið.

Þar sem fyrsti sunnudagur í aðventu var nýafstaðinn, sungu börnin “Bráðum koma blessuð jólin” sem óskalag, sem var kærkomin stemming inn í aðventuna. Í lokin afhenti skipherra börnunum bækling um Landhelgisgæsluna og við landganginn var hvert og eitt þeirra kvatt með handabandi. Voru börnin hinir mestu aufúsugestir, og til fyrirmyndar í allri hegðun og framkomu.

Höfðu fylgdarmenn barnanna á orði að eftir heimsóknina eignuðust skipverjar varðskipanna marga sjálfskipaða vaktmenn með varðskipunum þegar skipin taka út inniveru og liggja í höfn á Fáskrúðsfirði.

Meðfylgjandi myndir tók áhöfn varðskipsins í heimsókn barnanna.

Tyr_born_Faskrudsf_heims_03122007
Myndarlegur hópur á þyrludekkinu
Tyr_born_Faskrudsf_heims_03122007_3
Fánanum heilsað að hætti varðskipsmanna
Tyr_born_Faskrudsf_heims_03122007_4
Börnin fá leiðsögn um skipið
Tyr_born_Faskrudsf_heims_03122007_2
Sigurður Steinar Ketilsson skipherra kveður börnin
Tyr_born_Faskrudsf_heims_03122007_5
Börnin kveðja með virktum, eftir góða heimsókn

SRS 04.12.2007