Landhelgisgæslan semur við Sjóvá um tryggingar á loftförum LHG
Mánudagur 7. janúar 2008
Nýlega var undirritaður samningur á milli Sjóvá og Landhelgisgæslu Íslands um flugvátryggingar á loftförum Landhelgisgæslunnar. Tryggingarnar gilda frá og með 6. janúar s.l. Samningurinn er gerður í kjölfar útboðs Ríkiskaupa þar sem auglýst var eftir tilboðum í húf- og ábyrgðatryggingu fyrir þrjár þyrlur og flugvél, fyrir hönd Landhelgisgæslunnar. Tilboð Sjóvá reyndist hagstæðast.
Meginhlutverk flugdeildar Landhelgisgæslu Íslands er að sinna þeim verkefnum sem getið er um í lögum um Landhelgisgæslu Íslands. Í þeim felst meðal annars að sinna öllu almennu eftirliti á hafinu umhverfis landið, fiskveiðieftirliti, mengunareftirliti, ískönnun og rannsóknarvinnu. Ennfremur sinnir Landhelgisgæslan leit og björgun, sjúkraflugi af ýmsum toga, flugi með hjálparsveitir og sérsveit ríkislögreglustjóra sem og ýmsum sérverkefnum.
Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands og
Þór Sigfússon, forstjóri Sjóvá við undirritun samningsins
(mynd: Sigríður Ragna Sverrisdóttir)
Nánari upplýsingar veita Sveinn Segatta í síma 440-2150 og Þórhallur Hákonarson í síma 545-2033.
07.01.2008 SRS