Veruleg aukning í útköllum flugdeildar Landhelgisgæslunnar milli ára

Miðvikudagur 9. janúar 2008

Veruleg aukning varð í fjölda útkalla á þyrlur og flugvél Landhelgisgæslunnar milli áranna 2006 og 2007.

Frá árinu 2004 og fram til síðasta árs var jöfn aukning í fjölda útkalla flugdeildar, um 11% á ári. Árið 2007 voru útköll á loftför Landhelgisgæslunnar samtals 182 en voru 142 árið 2006. Þetta er um 28% heildaraukning á milli ára, sem er töluvert meiri aukning en árin á undan.

Af þessum 182 útköllum voru 76 útköll á láglendi, 54 útköll í óbyggðir og 52 útköll á sjó, þar af 6 lengra út en 150 sjómílur. 121 einstaklingur var fluttur í 182 útköllum árið 2007. Ekki kalla öll útköll á flutning fólks þar sem oft er um að ræða leitarflug eða annars konar aðstoð. Aukningin er nokkuð jöfn í útköllum í leit og björgun annars vegar og sjúkraflutning hins vegar.

09.01.2008 SRS