Bandarískrar Cessna 310 flugvélar saknað

Mánudagur 11. febrúar 2008 Kl. 19:50

Í dag klukkan 15:50 barst Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar boð frá Flugstjórnarmiðstöð Reykjavíkur um að bandarísk Cessna 310 flugvél hefði misst afl af öðrum hreyfli, gæti ekki dælt eldsneyti á milli tanka vélarinnar og gerði ráð fyrir að missa afl af seinni hreyfli vélarinnar bráðlega. Flugstjórnarmiðstöð Reykjavíkur setti af stað viðbúnaðarstig í Keflavík og stjórnstöð Landhelgisgæslunnar ræsti út þyrlur Landhelgisgæslunnar TF-LIF og TF-GNA. Klukkan 16:10 hvarf Cessna vélin af ratsjá, um 50 sjómílur vestur af Keflavík. Dönsk herflugvél sem var á svæðinu fór strax á staðinn og var leitinni á svæðinu stjórnað frá henni. TF-LIF kom á staðinn um klukkan 17:00. Þá sást ekkert til Cessna vélarinnar og ekkert merki hefur borist frá neyðarsendi. Þrír togarar sem voru á svæðinu voru kallaðir til og fóru strax til leitar. Cessna Skyhawk flugvél sem var á svæðinu fór einnig til leitar. Allir björgunarbátar Slysavarnafélagsins Landsbjargar af svæðinu frá Reykjavík til Grindavíkur voru kallaðir út. Fokker flugvél Landhelgisgæslunnar var send á staðinn og leysti dönsku herflugvélina af með leitarstjórn á svæðinu. Varðskip hélt einnig tafarlaust á svæðið. Enn hefur ekkert fundist af Cessna vélinni . Aðstæður til leitar eru erfiðar á svæðinu en leit heldur áfram frá skipum og þyrlum með nætursjónauka.

11.02.2008 SRS