Fulltrúar bandarísku Strandgæslunnar funda með Landhelgisgæslunni og dómsmálaráðherra

  • USCG_heims_25022008

Fimmtudagur 13.mars 2008

Dagana 25-27. febrúar s.l. komu þrír starfsmenn bandarísku Strandgæslunnar til fundar við starfsmenn Dómsmálaráðuneytisins og Landhelgisgæslunnar vegna samstarfs þessara aðila á sviði leitar-, björgunar- og öryggismála á Norður-Atlantshafi.

Samstarf Landhelgisgæslunnar og bandarísku Strandgæslunnar á sér margra áratuga sögu en við brotthvarf Varnarliðsins var það ákveðið af íslenskum og bandarískum stjórnvöldum að auka þetta samstarf til muna og gera samninga um það þar sem það ætti við.

Af hálfu Strandgæslunnar var ákveðið að fyrsta umdæmi hennar yrði sá aðili sem Landhelgisgæslan ætti mesta samstarfið við en þetta umdæmi heldur utan um starfsemi stofnunarinnar frá landamærunum við Kanada og allt suður til Maryland fylkis, þ.e. norðaustur strönd Bandaríkjanna.

Þeir fulltrúar Strandgæslunnar sem hingað komu að þessu sinni voru Captain Robert Dufrey sem er yfirmaður alþjóðamála hjá umdæminu, Captain Craig A. Gilbert sem er yfirmaður leitar- og björgunarmála hjá umdæminu og Tom Walker sem sér um málefni vegna neyðarástands um borð í farþegaskipum.

USCG_heims_25022008
Fulltrúar bandarísku Strandgæslunnar ásamt skipherra, Kristjáni Þ. Jónssyni,
um borð í varðskipinu Ægi (mynd: Jón Páll Ásgeirsson)

Strandgæslumennirnir funduðu m.a. með Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra, Þorsteini Geirssyni ráðuneytisstjóra í Dómsmálaráðuneytinu og Þórunni Hafstein skrifstofustjóra í Dómsmálaráðuneytinu. Þeim var kynnt starfsemi Landhelgisgæslunnar og heimsóttu þeir allar deildir hennar í Skógarhlíð, sem og flugdeild en einnig gafst þeim kostur á að sigla með varðskipinu Ægi og fylgjast með æfingu þyrlu og skipsins á Faxaflóa.

Að þessu loknu var sest niður með fulltrúum Landhelgisgæslunnar og útfærsla á samstarfi rædd til hlýtar. Fram kom áhugi hjá báðum aðilum fyrir því að vera með starfsmannaskipti þannig að viðeigandi starfsmenn fengju að kynna sér ýmsa starfsemi stofnananna um nokkurra vikna skeið í senn. Einnig voru möguleikar á að senda starfsmenn Landhelgisgæslunnar á námskeið hjá Strandgæslunni ræddir og var vel tekið í það. Ákveðið var að komið yrði á fót fastmótuðum upplýsingaskiptum á milli tengiliða hjá stjórnstöð Landhelgisgæslunnar / Vaktstöð siglinga annarsvegar og stjórnstöðvar fyrsta umdæmis bandarísku Strandgæslunnar hinsvegar. Að lokum var rætt um að vera með sameiginlega leitar- og björgunaræfingu sem færi fram suð-vestast á íslenska leitar- og björgunarsvæðinu en það er í raun einungis nokkrar sjómílur vestur af Hvarfi á Grænlandi. Stefnt er að því að æfa viðbrögð og aðgerðir vegna áfalls sem stórt skemmtiferðaskip verður fyrir og er áætlað að bjóða Kanadamönnum og Dönum þátttöku þar sem æfingin mun eiga sér stað við mörk þeirra svæða.

Domsmrh_fundur_260220080001_3
Fundarmenn í Dómsmálaráðuneytinu (mynd: Sigríður Ragna Sverrisdóttir)

Á meðan á dvöl Strandgæslumannanna stóð kom fram að bandaríska Strandgæslan hefur mikinn áhuga á því að fá Björn Bjarnason Dómsmálaráðherra til að flytja fyrirlestur um framtíðarsýn öryggismála í Norður-Atlanshafi við háskóla/sjóliðsforingjaskóla bandarísku Strandgæslunnar, US Coast Guard Academy, í náinni framtíð. Frá skólanum útskrifast verðandi stjórnendur og yfirmenn Strandgæslunnar eftir strangt fjögurra ára nám en þess má geta að hjá Strandgæslunni starfa þegar allt er meðtalið nálægt því 100,000 manns.

13.03.2008 SRS