Útför Helga Hallvarðssonar skipherra

  • Helgi_Hallvardsson_borinn_til_grafar

Föstudagur 28. mars 2008

Helgi Hallvardsson_skipherra

Helgi Hallvarðsson skipherra var borinn til grafar í gær en hann lést þann 15. mars síðastliðinn. Útförin fór fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík. Hann hóf fyrst störf hjá Landhelgisgæslunni 15 ára gamall og starfaði í hennar þágu mest alla sína starfsævi. Helgi lét af störfum, þá sem yfirmaður gæsluframkvæmda, árið 1998 en því starfi hafði hann gegnt frá árinu 1990.

Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar segir svo um Helga í minningargrein í Morgunblaðinu:

Helgi Hallvarðsson var hugmyndaríkur og góður Gæslumaður landhelginnar og gætti í hvívetna hagsmuna og virðingar Gæslunnar. Hann var fljótur að koma auga á það sem til hagræðingar og framfara horfði. Helgi markaði spor í þróunarsögu Gæslunnar sem eftir er tekið.

Í Morgunblaðinu birtist æviágrip Helga. Þar segir:

Helgi lauk farmannaprófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík árið 1954 og varðskipaprófi frá varðskipadeild skólans árið 1962. Þá lauk hann flugumferðarstjóraprófi frá Flugmálastjórn árið 1956, auk ýmissa námskeiða, m.a. hjá bandarísku strandgæslunni og danska sjóhernum, tengdum starfsemi Landhelgisgæslunnar. Helgi starfaði lengst hjá Landhelgisgæslunni. Hann byrjaði þar sem viðvaningur sumarið 1946 en var að loknu námi stýrimaður á öllum varðskipum og flugvélum hennar árin 1954 til 1963 og skipherra á öllum varðskipum, flugvélum og í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar frá 1964 til 1990. Helgi var oft í fremstu víglínu þegar landhelgin var færð út í 12, 50 og síðar 200 mílur og Íslendingar háðu sín þorskastríð. Helgi tók virkan þátt í stjórnmálastarfi, lengst af með Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík og Kópavogi, en síðar með Frjálslynda flokknum. Hann skrifaði fjölda greina í Morgunblaðið og Sjómannablaðið Víking og flutti einnig útvarpserindi um mál Landhelgisgæslunnar og öryggismál sjómanna. Endurminningar Helga, Í kröppum sjó, sem Atli Magnússon skráði, komu út 1992.

Helgi hlaut St. Olavsorðuna, fyrstu gráðu, árið 1974, riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu árið 1976 og heiðursmerki sjómannadagsins árið 2003.

Helgi_Hallvardsson_borinn_til_grafar
Helgi Hallvarðsson borinn úr kirkju. Líkmenn voru:
Sigurður Steinar Ketilsson skipherra, Benóný Ásgrímsson flugstjóri,
Hjalti Sæmundsson aðalvarðstjóri, Pétur Steindórsson flugstjóri,
Einar H. Valsson yfirstýrimaður, Benedikt Svavarsson vélstjóri,
Birgir Jónsson lagerstjóri og Jón Kr. Friðgeirsson bryti.
(Mynd: Gunnar Örn Arnarson)

Helgi_Hallvardsson_borinn_til_grafar_2
Landhelgisgæslufólk stóð heiðursvörð (Mynd: Gunnar Örn Arnarson)

28.03.2008 SRS