Varðskip aðstoðar bát við að fjarlægja drauganet úr sjó

  • Drauganet_hreinsad_ur_sjo

Þriðjudagur 1. apríl 2008

Á dögunum aðstoðaði varðskip bát við að hirða upp drauganet úr sjó. Drauganet eru veiðarfæri eða hlutar þeirra kölluð, sem liggja eða reka í sjó, gagnslaus.

Drauganet þessi voru á fjölfarinni siglingaleið við Suðvesturland og ekki þarf að fjölyrða um hættuna sem sjófarendum og lífríkinu stafar af slíkum netum, svo ekki sé minnst á sóðaskapinn. Í seinni tíð hefur minna borið á drauganetum hér við land en þó enn berist fréttir af netum eða hlutum þeirra á reki.

Bannað er að henda í sjóinn veiðarfærum, netastykkjum svo og öðrum hlutum úr veiðarfærum. Týni skip veiðarfærum í sjó ber skipstjóra að reyna að slæða þau upp. Takist það ekki skal hann tilkynna það til Landhelgisgæslunnar og skýra frá staðsetningu veiðarfærisins, eins nákvæmlega og unnt er og hvenær það týndist. Sjófarendur eru hvattir til að gæta vel að veiðarfærum sínum, vegna öryggis og ekki síður lífríkis sjávar.

Drauganet_hreinsad_ur_sjo
Drauganetið dregið úr sjó

01.04.2008 SRS