Tveir Gæslumenn í ferð með danska varðskipinu Vædderen

  • Vaedderen_dvol_Vilhj_Rögnv_1

Föstudagur 11.apríl 2008

Dagana 17. febrúar til 27. mars síðastliðinn fóru þeir Vilhjálmur Óli Valsson stýrimaður í flugdeild og Rögnvaldur Kristinn Úlfarsson, háseti á varðskipinu Tý, í ferð með danska varðskipinu Vædderen, en vera þeirra um borð er hluti af auknu samstarfi Landhelgisgæslunnar og dönsku strandgæslunnar.

Ferðin hófst þegar lagt var úr höfn í Reykjavík. Í fyrstu var skipið við veiðieftirlit á Grænlandssundi og við austurströnd Grænlands. Var Vilhjálmi og Rögnvaldi boðið með í veiðieftirlit þar sem áhersluatriði og verkferlar Dananna voru kynnt. Þá var siglt suður fyrir Hvarf og haldið til vesturstrandar landsins þar sem stundaðar voru æfingar af krafti auk þess sem skipið var reiðubúið til að aðstoða innfædda ef með þyrfti, t.d. ef opna þyrfti siglingaleiðir eða flytja fólk og varning milli staða þar sem mikið af samgönguleiðum landsins eru lokaðar á þessum árstíma vegna hafíss og snjóa.

Að því loknu eða þann 16. mars, var haldið áleiðis til Boston þar sem skipið fór í opinbera heimsókn og tók þátt í leitar- og björgunaræfingum með bandarísku strandgæslunni. Á meðan björgunaræfingunum stóð, fengu Vilhjálmur og Rögnvaldur að kynna sér starfsemi bandarísku Strandgæslunnar, US Coast Guard, og dvöldu þeir tvo sólarhringa um borð í bandaríska gæsluskipinu USCGC Spencer þar sem þeim var mjög vel tekið og leiddir í allan sannleika um verkefni, verkferla og útbúnað skipsins. Einnig var þeim boðið að kynna sér veiðieftirlit frá bandaríska skipinu og var mjög áhugavert að sjá muninn á vinnuaðferðum og hugarfari okkar Íslendinga, Dana og Bandaríkjamanna. Var þessi heimsókn og kynning hjá USCG að frumkvæði Dananna og eiga þeir bestu þakkir fyrir það og sýndi vel hvað þeim var umhugað að víkka sjóndeildarhring sinna gesta.

Eftir æfingarnar héldu Vilhjálmur og Rögnvaldur heim á leið, ánægðir með lærdómsríka 40 daga þar sem þeir fengu góða innsýn í það hvernig erlendir kollegar okkar vinna sína vinnu og koma aftur til starfa með reynslu sem þeir munu miðla til samstarfsfólks síns.

Meðfylgjandi myndir sýna brot úr ferðinni.

Vaedderen_dvol_Vilhj_Rögnv_1
HDMS Vædderen, danska varðskipið (Mynd: Vilhjálmur Óli Valsson)

Vaedderen_dvol_Vilhj_Rögnv_2
Veiðieftirlit á Grænlandssundi getur verið erfitt sökum íss
(Mynd: Vilhjálmur Óli Valsson)

Vaedderen_dvol_Vilhj_Rögnv_3
Ammassalik á austurströnd Grænlands, séð úr lofti
(Mynd: Vilhjálmur Óli Valsson)

Vaedderen_dvol_Vilhj_Rögnv_4
Gæslubáturinn Tulugaq dregur Vædderen á björgunaræfingu
(Mynd: Vilhjálmur Óli Valsson)

Vaedderen_dvol_Vilhj_Rögnv_5
Rögnvaldur skýtur af 50 kalibera byssu (Mynd:Vilhjálmur Óli Valsson)

Vaedderen_dvol_Vilhj_Rögnv_6
LYNX þyrla Dana að lenda á bandaríska strandgæsluskipinu
USCGC Spencer (Mynd: Vilhjálmur Óli Valsson)

Vaedderen_dvol_Vilhj_Rögnv_7
Veiðieftrlit með bandarísku strandgæslunni.  Eins og sést fara þau
vopnuð í allt eftirlit og eru klædd skotheldum vestum
(Mynd: Vilhjálmur Óli Valsson)

11.04.2008 SRS