Landhelgisgæslan tekur þátt í sameiginlegri æfingu viðbragðs- og björgunaraðila á N-Atlantshafi, á vegum NATO
Fimmtudagur 22.maí 2008
Á dögunum tóku varðskipið Týr og björgunarmiðstöðvar fyrir sjó- og flugatvik, sem eru Landhelgisgæslan og Flugstoðir, þátt í björgunaræfingu skammt frá Færeyjum. Æfingin, sem nefndist „Bold Mercy“ var haldin á vegum NATO. Æfingin er hluti af verkefni bandalagsþjóða NATO sem staðið hefur í mörg ár. Æfingin var skipulögð og framkvæmd eftir fyrirmælum í IAMSAR (International Search and Rescue Manual).
Æfð voru viðbrögð og samvinna björgunaraðila við flugslysi yfir sjó. Sett var á svið slys þannig að Hercules C-130 vél átti að hafa rekist á Cessnu C406 vél skammt NV af Færeyjum. Vs. Týr sá um aðgerðarstjórn skipa á vettvangi. Leitað var að 12 manneskjum og tveimur björgunarbátum.
Tilgangur æfingarinnar er að þjálfa og bæta samvinnu og samhæfingu á milli björgunarsvæða , eininga og stjórnstöðva nágrannaþjóða. Þjóða sem eru þátttakendur í NATO og hafa samliggjandi leitar- og björgunarsvæði.
Æfingin þótti takast vel, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum sem áhöfn varðskipsins Týs tók.
Færeyska varðskipið Brimil sendir léttbát til leitar
Út um kýraugað, varðskipsmenn á Tý sjósetja léttbátinn
Skipherrann, Sigurður Steinar Ketilsson, í aðgerðum
Fuglar hafsins virðast hafa tekið þátt í leitinni, fyrsta brúðan fundin
"Sjúklingurinn" kominn um borð í Vs. Tý, í góðar hendur Andra og Steinþórs
Skipstjórnarmenn fara yfir gögn
Björgunarbátur fundinn og kominn um borð í Vs. Tý, Steinþór, Ingólfur.
22.05.2008 SRS