Óðinn verður hluti af Sjóminjasafninu í Reykjavík
Föstudagur 30. maí 2008
Í dag var varðskipið Óðinn formlega afhent Hollvinasamtökum Óðins til eignar. Hollvinasamtökin fela Víkinni – Sjóminjasafninu í Reykjavík, varðveislu skipsins. Skipinu hefur verið lagt við bryggju utan við sjóminjasafnið þar sem það verður hluti af safninu.
Fjármálaráðherra, Árni M. Mathiesen, afhendir Guðmundi Hallvarðssyni formanni Hollvinasamtaka Óðins lykilinn að Óðni.
Varðskipið Óðinn þjónaði Landhelgisgæslunni dyggilega í nærri hálfa öld, á árunum 1960 – 2006. Skipið var smíðað í Álaborg í Danmörku árið 1959, sérsmíðað sem varð- og björgunarskip. Óðinn var mikilvægt tæki í landhelgisbaráttu Íslendinga, Þorskastríðunum, en gengdi einnig veigamiklu hlutverki í almannavörnum Íslendinga og björgunarstörfum af ýmsu tagi.
Frá og með morgundeginum verður Vs.Óðinn opinn almenningi, sem hluti af Sjóminjasafninu í Reykjavík og þykir landhelgisgæslufólki skipinu þar sómi gerður, þar sem það er merkur hluti af íslenskri sjóferðasögu.
Hollvinir Óðins fagna tímamótunum.
Dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, ávarpar Hollvini Óðins.
Lögreglukórinn söng við athöfnina.
Starfsmenn LHG og Hollvinir Óðins fylgjast með söng Lögreglukórsins.
Myndir: Níels Bjarki Finsen
30.05.2008 SRS