Mannbjörg á Skjálfanda

Þriðjudagur 2. september 2008

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst kl. 10:18 tilkynning í gegn um Neyðarlínuna um að eldur hafi komið upp í fiskibátnum Sigurpáli ÞH-130 sem var staddur á Skjálfanda. Hafði stjórnstöðin tafarlaust samband við bátinn en tveir menn voru um borð. Þeir fengu fyrirmæli um að sjósetja björgunarbát.

Stjórnstöð hafði samband við nærstödd skip og báta sem voru beðin um að stefna á staðinn. Björgunarbátur Slysavarnafélagsins á Húsavík, Jón Kjartansson var kallaður á staðinn ásamt slökkviliði. Klukkan 10:32 tilkynnti áhöfn björgunarbátsins Jóns Kjartanssonar að áhöfn Sigurpáls ÞH-130 væri komin um borð í björgunarbátinn heilir á húfi.

Fóru slökkviliðsmenn um borð í Sigurpál og vinna nú við að slökkva eldinn. Björgunarbáturinn Jón Kjartansson er nú á leið í land að sækja fleiri slökkviliðsmenn og bíða aðrir bátar og skip átekta.

Sigurpáll ÞH-130 er 26 tonna eikarbátur smíðaður á Akureyri 1972.

2. september/HBS