Ísland tekur við formennsku í NACGF

18. september 2008

Georg Kr. Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar tók í morgun við formennsku í samtökunum North Atlantic Coast Guard Forum (NACGF), á ársfundi sem haldin var í Ilullisat á Vestur Grænlandi. Formennska Íslands í samtökunum felst í að stýra og móta stefnu hvað varðar öryggi á hafinu (Maritime security).

Að samtökunum standa strandgæslur tuttugu ríkja við Norður Atlantshaf og er markmið þeirra fyrst og fremst að samhæfa og samræma aðgerðir strandgæslnanna. Verkefni strandgæslna eru afar fjölbreytt og viðamikil og má þar nefna fiskveiðieftirlit, leit og björgun ásamt því að bregðast við sívaxandi skipulagðri glæpastarfsemi á hafinu.

Vegna breyttra aðstæðna á norðurslóðum varðar það miklu fyrir hagsmunir Íslendinga að veita samtökunum formennsku.

Samhliða fundinum fóru fram æfingar undir merkjum NACGF, annars vegar leitar- og björgunaræfing þar Ísland, Danmörk, Bandaríkin og Kanada æfðu viðbrögð við afleiðingum óveðurs og hins vegar voru æfð viðbrögð við umhverfisslysi.

Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra var einn af hvatamönnum að stofnun samtakanna en þau sækja fyrirmynd sína til hliðstæðra samtaka sem starfað hafa við Norður Kyrrahaf síðastliðin ár.

Myndirnar tók Hrafnhildur B. Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi LHG

18.09.08/HBS

Georg_LHGmott_form_180908
Georg Kr. Lárusson tekur við formennsku í NACGF

SYN_Aef_Graenland_180908

TF-SÝ´N út á æfingunni út um glugga danska herskipsins Knud Rassmussen