Sprengjusveit LHG ásamt friðargæslunni verðlaunuð

Föstudagur 17. Október 2008

Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar, íslenska friðargæslan og samstarfsfólk þeirra í Líbanon hlutu nýverið verðlaun Sameinuðu þjóðanna, sem nefnd eru Nansenverðlaunin, fyrir framlag sitt til sprengjueyðinga í Suður Líbanon, á svæðum sem ógna lífi óbreyttra borgara.

Nansensverðlaununum er ætlað að sýna og sanna að fólk, sem vinnur hörðum höndum í þágu flóttamanna, sé metið að verðleikum en fjöldamargir hafa týnt lífi í  starfi við sprengjueyðingar. Vonast er til að verðlaunin auki og bæti enn frekar þá vernd sem veitt er flóttamönnum í dag.

Nansenverðlaunin eru kennd við norska vísindamanninn og landkönnuðinn Friðþjóf Nansen sem var brautryðjandi í að aðstoða flóttamenn og hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1922. Verðlaunin eru veitt til að gera sýnilega þá vinnu fólks sem vinnur eitt og sér eða í krafti samtakamáttar að því að bæta hag flóttamanna.

17.10.2008/HBS