Varðskip komið með Grímsnes í tog
Miðvikudagur 19. nóvember Kl. 16:10
Varðskip Landhelgisgæslunnar er nú komið með Grímnes GK-555 í tog undan Kötlutanga en vírinn slitnaði fyrr í dag þegar reynt var að taka bátinn í tog til Vestmannaeyja. Að sögn skipherra er veður slæmt á svæðinu, 30-50 hnútar, gengur á með éljum og ölduhæð allt upp í sjö metra. Níu manns eru í áhöfn bátsins og er áhöfnin ekki talin í hættu. Reiknað er með að siglingin til Vestmannaeyja taki um tólf tíma.
Sjókælir bátsins skaddaðist þegar hann strandaði á sandrifi 3,2 sjómílur NA af Skarðsfjöruvita kl. 06:38 í morgun. Var þá gripið til þess ráðs að kæla aðalvél með ferskvatni því sem var um borð. Kláruðust vatnsbirgðir eftir um tveggja tíma siglingu og var því ákveðið að varðskipið tæki bátinn í tog.
Grímsnes GK-555 er 33 metra, 178 brl. netabátur frá Grindavík með níu manns í áhöfn.
Myndirnar tóku Sigurður Ó. Óskarsson, stýrimaður og Jón Kr. Friðgeirsson, bryti.
19.11.2008/HBS
Línan komin
Skipherra fylgist með aðgerðum
Línu skotið yfir