Skrokkur tappatogara sekkur á leið til Hollands

Fimmtudagur 27. Nóvember 2008

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst síðastliðna nótt tilkynning frá togaranum Grétu (áður Margrét EA-71). Hafði þá skrokkur af gömlum togara, Guðrúnu Björgu HF-125, sem Gréta var að draga austur af Aberdeen í Skotlandi, sokkið. Var Gréta að draga togarann áleiðis til Hollands þegar hann byrjaði að sökkva og slitnaði þá taugin á milli skipanna.

Skipstjóra Grétu var bent á að hafa strax samband við Aberdeen Coast Guard sem hann gerði. Enginn maður var um borð í Guðrúnu Björgu og engin olía né önnur mengandi efni voru um borð. Guðrún Björg kom til landsins sem  Jón Trausti ÞH-52 og var smíðaður í Austur-Þýskalandi 1959 og var 249 tonna tappatogari. Skipin voru eins og fyrr segir á leið til Hollands en þangað var búið að selja Guðrúnu Björgu í brotajárn.  

27.11.2008/HBS

Greta

Gréta (áður Margrét EA-71). Mynd Guðmundur St. Valdimarsson

GudrunBjorg__Sarun_HF

Guðrún Björg. Myndina tók Jón Páll Ásgeirsson