Grunur leikur á að stundaðar séu veiðar í lokuðum hólfum

Þriðjudagur 2. Desember 2008

Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum síðustu daga hafa vinir okkar Færeyingar reynt að stemma stigu við lögbrotum færeyskra fiskiskipa í íslenskri lögsögu en ákæruvaldið í Færeyjum rannsakar nú mál sem varða tvö færeysk fiskiskip sem grunuð eru um að hafa framið lögbrot í tengslum við fiskveiðar. Í báðum tilfellum hefur ákæruvaldið rökstuddan grun um að skipin hafi veitt ólöglega í íslenskri lögsögu með slökkt á fjareftirlitsbúnaði sem sýnir hvar skipin eru stödd.

Grunur leikur á að íslensk skip stundi sömu iðju hér við land. Hjá Landhelgisgæslu og lögreglu eru tvö mál til rannsóknar sem varða íslenska sjómenn sem grunaðir eru um veiðar í lokuðum hólfum á hafsvæðinu umhverfis Ísland og slökkva á fjareftirlitsbúnaði eða þurrka út gögn til að ekki komist upp um athæfið.

Í báðum tilfellum fóru starfsmenn Landhelgisgæslunnar um borð til að fara yfir gögn og í öðru tilfellinu virðist sem siglingatölvu hafi verið hent og ný tölva sett um borð, sögðu skipverjar gömlu tölvuna hafa eyðilagst. Hún fannst ekki þrátt fyrir leit og var því ekki hægt að fá framburð skipverja staðfestan.

02.11.2008/HBS