Samningur undirritaður um framkvæmd skyndiskoðana

  • Vs_Aegir_2007_G_St_Vald

Föstudagur 12. desember 2008

Georg Kr. Lárusson, forstjóri LHG og Hermann Guðjónsson, siglingamálastjóri skrifuðu í morgun undir samstarfssamning í húsakynnum Siglingastofnunar í Kópavogi.

Um er að ræða minniháttar breytingu á núgildandi samningi en
hún felst samræmingu við gildandi lög og reglugerðir og að skyndiskoðanir séu framkvæmdar og niðurstöður þeirra meðhöndlaðar líkt og niðurstöður úr öðrum lögbundnum skoðunum. Eftir breytinguna mun Landhelgisgæslan, að loknum skyndiskoðunum, færa allar upplýsingar beint inn í gagnagrunn Siglingastofnunar.

Skyndiskoðun er fyrirvaralaus skoðun á völdum atriðum framkvæmd af Siglingastofnun Íslands eða Landhelgisgæslu Íslands á skipum og búnaði þeirra til að ganga úr skugga um að skip og búnaður þess sé í samræmi við gildandi lög og reglur. Svo og að safna upplýsingum um ástand skipa og búnað þeirra.

Talsverðar breytingar hafa orðið á því laga- og reglugerðarumhverfi sem var við lýði árið 1998 þegar fyrri samningurinn var gerður, bæði hvað varðar leiðbeiningar til skoðunarmanna og tölvukerfi til utanumhalds um niðurstöður skoðana.


12.12.2008/HBS