Auðvelt er að villast á neyðarblysum og almennum flugeldum.

  • flugeldar_2

Þriðjudagur 30. desember 2008

Nú rennur árið 2008 sitt skeið og hið hefðbundna tímabil skoteldasölu nálgast hámarkið. Flugeldasalan er stærsta, og um leið mikilvægasta fjáröflun björgunarsveita en kostnaður við rekstur björgunarsveitar er mikill þrátt fyrir að allt starf sé unnið í sjálfboðavinnu. Samkvæmt reglugerð um skotelda nr. 952/2003 er leyfilegt að selja og skjóta upp flugeldum frá 28. desember - 6. janúar ár hvert og vildu sjálfsagt margir hverjir skjóta upp við mun fleiri tækifæri.

Ekki gera sér allir grein fyrir að auðvelt er að villast á neyðarblysum og almennum flugeldum. Neyðarblys eru mjög mikilvægt öryggistæki fyrir sjófarendur og utan hins hefðbundna flugeldatímabils þarf að sækja um sérstakt leyfi til að skjóta upp skoteldum.

Einnig er mikilvægt að gera Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar viðvart , ef vitað er til eða sést til aðila að skjóta upp skoteldum utan ofangreinds tímabils. Stjórnstöð LHG fær oft á tíðum upphringingar frá sjómönnum og almenningi sem telja sig hafa séð neyðarblys. Í framhaldinu er kallaður er út mannskapur til björgunaraðgerða en oftar en ekki kemur í ljós að um var að ræða skoteld í mannfagnaði. Vill Landhelgisgæslan því brýna fyrir fólki að mjög mikilvægt er að gera Stjórnstöðinni viðvart ef slíkt stendur til.

Myndirnar tók Guðmundur St. Valdimarsson af flugeldasýningu sem skotið var frá varðskipi LHG á Menningarnótt 2008.

30.12.2008/HBS

flugeldar_1