Tilkynningarskylda fiskiskipa

Mánudagur 5. janúar 2009

Nýjar tilkynningareglur fyrir öll íslensk fiskiskip tóku gildi þann 1. september 2008. Þær taka til allra íslenskra fiskiskipa sem hafa leyfi Fiskistofu til að stunda fiskveiðar í atvinnuskyni innan sem utan fiskveiðilögsögu Íslands. Skip sem stunda fiskveiðar skulu búin fjarskiptabúnaði, sem sendir staðsetningar með sjálfvirkum hætti á að minnsta kosti klukkustundar fresti til Landhelgisgæslunnar.

Óheimilt er að láta úr höfn með bilaðan eftirlits­búnað nema með sérstöku leyfi eftirlitsstöðvarinnar. Ef búnaður bilar eiga skip og bátar að senda staðsetningu eftir öllum færum leiðum á 6 klukkustunda fresti.

Líklegt framtíðarkerfi sjálfvirkar tilkynningarskyldu íslenskra skipa teljum við geta verið svonefnt AIS kerfi (Automatic Identification System). Það er að festast í sessi sem aðalstaðsetningakerfi varðandi almenn siglingaöryggi. AIS, eða Automatic Identification System, má þýða sem Sjálfvirka Upplýsingagjöf Skips.  Tækið sendir ýmsar upplýsingar um eigið skip og siglingu þess, til annarra skipa og strandstöðva.  Jafnframt tekur tækið á móti sambærilegum upplýsingum annarra skipa með AIS-tæki. 

050109/HBS