Uppsögnum hjá LHG frestað um óákveðinn tíma

Miðvikudagur 21. janúar 2009

Neðangreind tilkynning barst starfsmönnum Landhelgisgæslunnar nú fyrir stundu frá Georg Kr. Lárussyni, forstjóra.

„Kæru samstarfsmenn

Ég hef ákveðið að fresta fyrirhuguðum uppsögnum hjá Landhelgisgæslu Íslands um óákveðinn tíma. Að undanförnu hefur verið unnið að því í samstarfi við ykkur starfsmenn og stéttarfélög ykkar að endurskipuleggja störf, breyta starfshlutfalli, leita tímabundinna starfa á sérsviði starfsmanna erlendis og fleira.  Þessar aðgerðir eru nú þegar farnar að bera nokkurn árangur og verður þeim haldið áfram.  Þá verður enn frekar reynt að finna tímabundin verkefni erlendis fyrir tæki og áhafnir Landhelgisgæslunnar.  Því er þessi ákvörðun tekin nú.  Áfram verður unnið að endurskoðun og endurskipulagningu á rekstri og þær aðgerðir sem nú þegar hefur verið ákveðið að ráðast í og fram komu í greinargerð sem send var ykkur og stéttarfélögum sl. fimmtudag, munu koma til framkvæmda.

Ég mun upplýsa ykkur eftir föngum um framgang mála sem vonandi mun skýrast á næstu vikum.

Með kveðju,

Georg Kr. Lárusson“.