Annasamur dagur hjá Aðgerðasviði LHG

  • TF-LIF.Langjokull

Fimmtudagur 25. janúar 2009

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar hefur haft í nógu að snúast í dag því kl. 15:01 barst beiðni í gegn um Neyðarlínuna um aðstoð þyrlu við að sækja slasaðan mann í Landmannalaugar. Að sögn félaga mannsins var hann á vélsleða og féll fram af barði og niður í gil og illmögulegt var að komast að staðnum. Á staðnum var logn og heiðskýrt.

Nálægar Björgunarsveitir Slysavarnarfélagsins Landsbjargar voru kallaðar út auk þyrluvaktar LHG. Björgunarsveitir fluttu manninn með snjóbíl á stað þar sem hentugur var til þyrlulendingar og lenti þyrlan með manninn við Landspítalann í Fossvogi á sjötta tímanum.


Varðskip Landhelgisgæslunnar fór í dag um borð í línu- og handfærabátinn Ólaf HF 200 sem staðinn var að meintum ólöglegum veiðum í skyndilokunarsvæði norður af Vatnsleysuströnd.

Einnig hafði lögreglan á Þórshöfn samband við stjórnstöð LHG þar sem í fjörunni á Langanesi fannst torkennilegt dufl. Sprengjusveit Landhelgisgæslunnar fékk sendar myndir frá Þórshöfn og gátu þar með greint hlutinn sem fannst í fjörunni en um var að ræða "mann fyrir borð" bauju.

Landhelgisgæslan hvetur almenning til hafa samband eða gera lögreglu viðvart ef það verður vart við torkennilega hluti í sjó eða í fjörum landsins. Mjög varhugavert er að eiga við slík fyrirbæri.

Myndina tók flugdeild LHG en hún sýnir TF-LÍF á Langjökli.

25.01.2009/HBS