Leitað á Breiðafirði í nótt

Þriðjudagur 3. Febrúar 2009

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst kl. 22:59 tilkynning í gegn um Neyðarlínuna frá Hvammsnesi, sem er sunnan við Búðardal, um að sést hefðu 2 neyðarblys á lofti vestur út Hvammsfjörð. Grunur lék á að bátur væri í vanda.

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út, lögreglunni í Stykkishólmi og Ólafsvík var gert viðvart auk þess sem kallaður var út Björgunarbátur Slysavarnafélagsins Landsbjargar í Búðardal. Einnig tóku þátt í leitinni tvær trillur á svæðinu. Voru björgunarsveitir í viðbragðsstöðu.

Ekkert fannst í kjölfar leitar sem stóð í nokkrar klukkustundir. Notaðir voru nætursjónaukar þyrlunnar við leitina auk þess ákveðið var að skjóta upp neyðarblysi til að sjónarvottur átti sig frekar á staðsetningu neyðarblysanna sem sáust fyrr um kvöldið.

Klukkan 02:45 hafði leit ekki borið árangur. Höfðu engar frekari vísbendingar borist um bát á leitarsvæðinu og var því ákveðið að halda til hafnar. Þyrla Landhelgisgæslunnar fór af leitarsvæðinu kl. 03:15.

Landhelgisgæslan hvetur fólk til að hafa samband ef frekari vísbendingar berast um málið.

Kortið er fengið úr gagnagrunni stjórnstöðvar LHG og sýnir leitarferla næturinnar.

03.02.09/HBS

Kort_heimasida_leit

Leitarferlar_Breidafirdi