Ráðstefna North Atlantic Coast Guard Forum í Reykjavík

  • NACGF_logo

Ráðstefna vinnuhópa North Atlantic Coast Guard Forum (NACGF) hefst í Reykjavík þriðjudaginn 10. mars. North Atlantic Coast Guard Forum eru samtök strandgæslustofnana á Norður Atlantshafi.  Um hundrað og fjörutíu  manns frá tuttugu aðildarþjóðum taka þátt í  ráðstefnunni sem verður haldin á Radisson SAS Hótel Sögu.

Fyrir Íslands hönd sitja fulltrúar Landhelgisgæslunnar ráðstefnuna , en að auki koma meðal annars fulltrúar frá Dóms- og kirkjumálaráðuneyti, Sjávarútvegsráðuneyti, Ríkislögreglustjóra, Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og þeirra stofnana sem með einum eða öðru  hætti koma að þeim málefnum sem verða til umræðu á ráðstefnunni. Georg Kr. Lárussonar  forstjóri Landhelgisgæslunnar er formaður samtakanna en hann tók við af Nils Wang  admírál hjá danska flotanum á aðalfundi samtakanna sl. haust. 

Stefnumál samtakanna eru unninn innan sjö vinnuhópa sem eru;   
1.  Öryggismál á hafinu.
2.  Smygl eiturlyfja.
3.  Ólöglegir innflytjendur.
4.  Fiskveiðieftirlit.
5.  Leit og björgun.
6.  Samvinna á sviði tækni.

Landhelgisgæslan var einn af stofnfélögum samtakanna en að þeim standa tuttugu stofnanir sem annast strandgæslustörf þjóðanna sem þau tilheyra. Þessar þjóðir eru;  Belgía, Bretland, Bandaríkin, Danmörk, Eistland, Finnland, Frakkland, Holland, Ísland, Írland, Kanada, Litháen, Lettland, Noregur, Pólland, Portúgal, Rússland, Spánn, Svíþjóð og Þýskaland. Í mörgum tilvikum eru þetta sjóherir landanna, í sumum tilvikum strandgæslur sem heyra undir sjóherina og  í enn öðrum sérstakar strandgæslustofnanir. 

Tilgangur samtakanna er að greiða fyrir samvinnu ofangreindra stofnana.  Í því felst meðal annars að samtökin munu leitast við að skiptast á skipaumferðarupplýsingum, bæði hvað varðar fiskiskip sem og önnur skip, þ.á.m. olískip og skip sem grunuð eru um ólöglegt athæfi á einn eða annan hátt.  Einnig samstarf á sviði leitar og björgunar, almenns eftirlits á hafinu, þjálfunar, tæknilegra upplýsinga og svo mætti lengi telja.  Samtökin eru í raun stofnun til að gæta að auknu öryggi á Norður Atlantshafi en allir þeir undirþættir sem samtökin starfa að,  geta í raun fallið undir það sem erlendar stofnanir á þessu sviði nefna „Maritime  Security“.

Markmið Íslands er að stuðla að samræmingu milli aðila eftir því sem við á, koma á kerfi upplýsingaskipta, kanna möguleika stofnana innan samtakanna til að aðstoða ríki utan samtakanna og að koma upp heimasíðu fyrir samtökin.

Ráðstefnan hefst eins og fyrr segir á þriðjudag og verða framsöguerindi á dagskrá kl.  0900-1230.