Lykilhlutverk Gæslunnar í samvinnu strandgæslna og sjóherja

Gagnkvæmt traust, trúverðugleiki, samvinna og mikilvægi upplýsingamiðlunar var sameiginleg niðurstaða ráðstefnu strandgæslna og sjóherja tuttugu þjóða á Norður Atlantshafi sem lauk á Hótel Sögu í gær og Landhelgisgæslan annaðist og skipulagði. Rússland, Bandaríkin og Kanada eiga aðild að samtökunum auk sautján Evrópuþjóða. Formennska samtakanna er í höndum Georgs Kr. Lárussonar forstjóra Landhelgisgæslunnar og hefur Ísland þar með lykilhlutverki að gegna við að móta starfsemi samtakanna, stuðla að samræmingu milli aðila eftir því sem við á og koma á kerfi til upplýsingaskipta sem tengist heimasíðu samtakanna.

Fulltrúar dóms- og kirkjumálaráðuneytis og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis fluttu erindi á ráðstefnunni og kom þar meðal annars fram að samvinna sem þessi sé keðja sem liggur milli ofangreindra þjóða og Íslendingar ætli sér ekki að vera veikur hlekkur í keðjunni. Í lok ráðstefnunnar tók fulltrúi bandarísku strandgæslunnar undir þessi orð og sagði Landhelgisgæsluna margoft hafa sannað að hún hefur mikinn samtakamátt og er þvert á móti öflugur hlekkur í keðjunni.

Fyrir Íslands hönd sátu fulltrúar Landhelgisgæslunnar ráðstefnuna en að auki komu meðal annars fulltrúar ofangreindra ráðuneyta, Ríkislögreglustjóra, Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og stofnunum sem með einum eða öðrum hætti koma að þeim málefnum sem voru til umræðu á ráðstefnunni. Stefnumál samtakanna eru unnin innan sjö vinnuhópa sem eru; öryggismál á hafinu, smygl eiturlyfja, ólöglegir innflytjendur, fiskveiðieftirlit, leit og björgun auk tæknisamvinna.

Aðalfundur samtakanna verður haldinn á Akureyri 29. september – 2. október nk. og verður þá jafnframt haldin stór sameiginleg æfing með aðkomu þeirra þjóða sem standa að samtökunum.

13032009/HBS


NACGFHopurheimas