Unnið að nánara samstarfi LHG og bandarísku strandgæslunnar

  • EEZ_Ice_SRR_2008

Þriðjudagur, 17. mars 2009

Aukið samstarf Landhelgisgæslunnar og bandarísku strandgæslunnar ásamt mikilvægi þess var rætt á fundi Georgs Kr. Lárussonar, forstjóra Landhelgisgæslunnar og Dale Gable aðmíráls hjá bandarísku strandgæslunni í liðinni viku. Einnig fóru aðilar bandarísku strandgæslunnar um borð í varðskip LHG og fengu kynningu á starfsemi stjórnstöðvar.

Landhelgisgæsla Íslands og bandaríska strandgæslan vinna saman að nánari útfærslu samstarfsyfirlýsingar sem Thad W. Allen, yfirmaður bandarísku strandgæslunnar og Björn Bjarnason, fyrrv. dóms- og kirkjumálaráðherra undirrituðu í lok október 2008. Samkvæmt yfirlýsingunni munu strandgæslan og Landhelgisgæslan styrkja samstarf sitt enn frekar, svo sem við leit og björgun, stjórn á siglingum, mengunareftirlit á hafinu og almenna öryggisgæslu. Þá er einnig gert ráð fyrir sameiginlegri þjálfun og menntun starfsmanna eftir því sem nauðsynlegt er til að treysta samstarfið sem best. Landhelgisgæslan og bandaríska strandgæslan hafa um árabil átt náið samstarf á ýmsum sviðum. Yfirlýsingin byggist á samkomulagi Bandaríkjanna og Íslands frá 11. október 2006 um öryggis- og varnarmál, en þar eru ákvæði um samstarf borgaralegra stofnana landanna á sviði öryggismála.

Mikil áhersla hefur verið lögð á að efla samstarf strandgæslustofnana við norðanvert Atlantshaf og fjölga sameiginlegum björgunaræfingum. Slík samvinna er gífurleg mikilvægt skref til að vera viðbúin slysum sem upp geta komið. Er slíkur viðbúnaður á meðal þeirra málaflokka sem ræddir eru innan samtakanna North Atlantic Coast Guard Forum sem eru byggð upp af tuttugu strandgæslustofnunum þjóða innan svæðisins. Formennska samtakanna í höndum Georgs Kr. Lárussonar forstjóra Landhelgisgæslunnar en samtökin voru stofnuð fyrir tveimur árum síðan. Landhelgisgæslan ber ábyrgð á stjórnun björgunaraðgerða þegar skip lenda í áföllum á íslenska leitar- og björgunarsvæðinu sem nær upp að austurströnd Grænlands og suður undir Hvarf. Gerir stofnunin ráðstafanir með sínum eigin skipum og flugvélum og ef nauðsyn þykir óskar hún eftir aðstoð frá nærliggjandi skipum og samstarfsstofnunum sínum við norðanvert Atlantshafið. 

Kortið sýnir íslenska leitar- og björgunarsvæðið.

Myndir tóku Sigurður Óskar stýrimaður og Hrafnhildur Brynja uppl.fulltrúi.

170309/HBS

USCG_VS_heimsokn

Dale Gable aðmíráll, Halldór Gunnlaugsson skipherra og Georg Kr. Lárussonar, forstjóri Landhelgisgæslunnar ræða málin. 


USCG_Hopur_skip

Sendinefnd bandarísku strandgæslunnar eftir heimsókn í varðskipið TÝ.