Varnarmálaráðherra Danmerkur ræðir öryggismál við forstjóra Landhelgisgæslunnar

Föstudagur 20. mars 2009

Sören Gade, varnarmálaráðherra Danmerkur, er staddur í opinberri heimsókn á Íslandi í tengslum við veru danska hersins sem sinnir loftrýmiseftirliti við Ísland. Gade notaði tækifærið og hitti Georg Lárusson, forstjóra Landhelgisgæslunnar, þar sem þeir ræddu samstarf ríkjanna á sviði öryggis- og björgunarmála.

SorenGade_koma

Georg Kr. Lárusson kynnir Ásgrím L. Ásgrímsson yfirm. stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar fyrir Sören Gade.

Landhelgisgæslan og danski flotinn hafa um árabil átt í góðu samstarfi, einkum á sviði eftirlits- og öryggismála. Björn Bjarnason, þáverandi dómsmálaráðherra og Sören Gade, undirrituðu samkomulag í janúar 2007 um nánara samstarf milli Landhelgisgæslunnar og danska flotans er varðar leit, eftirlit og björgun á Norður- Atlantshafi. Það samkomulag hefur styrkt sambandið milli þessara tveggja aðila og telur Gade það  grundvöll fyrir enn frekari samvinnu í náinni framtíð.

Danski varnarmálaráðherrann lýsti jafnframt ánægju sinni með samstarfið við Landhelgisgæsluna. „Við þurfum á hvorum öðrum að halda vegna þess hve hafsvæðið á þessum slóðum er erfitt yfirferðar.  Ísland fær bráðum nýtt varðskip og nýja flugvél í sínar hendur og það mun án efa stuðla að enn frekari samvinnu.” Gade sér fyrir sér í því samhengi  að Landhelgisgæslan komi að eftirlitsverkefnum í kringum Færeyjar og Grænland þegar ný Dash-8 flugvél Landhelgisgæslunnar verður tilbúin í upphafi næsta árs.

Búist er við því að siglingaleiðir fyrir stór flutningaskip opnist þegar íshellan á Norður-Íshafi hopar enn frekar. Það skapar tækifæri fyrir enn frekari samvinnu Íslands og Danmerkur að mati Gade. „Þetta hefur í för með sér mikla aukningu skipaumferðar á þessu hafsvæði og það verður ærið verkefni fyrir Danmörku og Ísland. Þess vegna ættum við að huga að enn nánari samvinnu á komandi árum. Vegna þess að það er grunur um að olía og aðrar auðlindir kunni að finnast á þessu svæði má búast við aukinni spennu milli ríkja. Það viðfangsefni krefst samvinnu Íslands og Danmerkur og verður að leysa í samráði við önnur  ríki.”

Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar er sömuleiðis ánægður með samstarfið við Dani sem hann telur mikilvægt fyrir öryggi við Íslandsstrendur. „Íslendingar og Danir eiga í einstöku samstarfi á sviði öryggismála á Norður-Atlantshafi. Oft á tíðum má vart greina hvort aðgerðir hér við land séu undir stjórn Íslendinga eða Dana. Við reiðum okkur mjög á þetta samstarf. Við erum hins vegar að byggja okkur upp til að verða öruggari og öflugari þátttakendur í þessu samstarfi. Nýtt skip og ný flugvél er nauðsynlegur þáttur í því."

Ísland tók nýlega við formennsku af Danmörku í North Atlantic Coast Guard Forum og fer Georg með formennsku í ráðinu. Þrátt fyrir ungan aldur er ráðið mikilvægt í öryggislegu tilliti, ekki síst þegar siglingaleiðin í Norður-Íshafi opnast. Helstu verkefni ráðsins er að tryggja öryggi á svæðinu, halda utan um eftirlit með fiskveiðum og sporna gegn skipulagðri glæpastarfsemi.

 

Myndirnar tók Árni Sæberg.

SorenGade1

Heiðursvörður við komu Sören Gade til höfuðstöðva Landhelgisgæslu Íslands.

Georg_Soren

Við líkan af varðskipinu Tý.

SorenGade_fundur

Sören Gade afhendir Georg Kr. Lárussyni gjöf. 

Tinna_Georg

Ekki er annað að sjá en að samstarf Georgs Kr. Lárussonar og Ellisifjar Tinnu Víðisdóttur, forstjóra Varnarmálastofnunar sé gott.

Soren_Georg

Georg og Sören virða fyrir sér útsýni til sjávar