Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar í björgunaraðgerðum
Þyrlur Landhelgisgæslunnar TF-EIR og TF-GNA voru kallaðar út kl. 12:59 í dag þegar stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst beiðni frá fiskiskipinu Kristbjörgu HF-177 sem var vélarvana með fimmtán manns um borð um eina sjómílu suður af Krísuvíkurbjargi. Sunnanátt var á staðnum og rak bátinn í átt að berginu.
Björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, Oddur V Gíslason Grindavík, var samstundis kallað út einnig var nálægt fiskiskip, Gulltoppur GK-24, beðið um að fara á staðinn. Einnig voru kallaðar út björgunarsveitir Slysavarnarfélagsins Landsbjargar úr Grindavík og frá Hafnarfirði með fluglínutækjarbúnað.
Kristbjörg lét strax akkeri falla þannig að skipið rak ekki nær bjarginu og var Gulltoppur kominn á staðinn kl. 13:36. Björgunarskipið Oddur V. Gíslason var kominn á staðinn um 10 mínútum síðar.
Eru þyrlur Landhelgisgæslunnar TF-EIR og TF-GNA í viðbragðsstöðu á staðnum. Kristbjörg er 290 tonna fiskiskip, 35 metrar að lengd.
Í þessum töluðu orðum er vélin í Kristbjörgu komin í gang og unnið er að því að losa akkerð. Björgunarskipið Oddur V. Gíslason mun fylgja Kristborgu til hafnar.
040409/HBS
1. Kristbjörg HF-177 vélarvana
2. Þyrlan flýgur yfir fiskiskipið
3. Fiskiskipið Gulltoppur GK-24 kemur á staðinn kl. 13:36
Björgunarskipið Oddur V. Gíslason kemur um kl. 13:45