Flugslysaæfing á Þórshöfn - hvernig ber að umgangast þyrlur í björgunaraðgerðum?
Laugardagur 18. apríl 2009
Áhöfn TF-LÍF, þyrlu Landhelgisgæslunnar var á Þórshöfn og Vopnafirði í vikunni með kynningar fyrir viðbragðsaðila um hvernig umgangast ber þyrlur í björgunaraðgerðum. Voru kynningarnar vegna flugslysaæfingar sem haldin var á Þórshöfn.
Farið var í eftirlitsflug frá Raufarhöfn fyrir Langanes að Bakkafirði og þaðan á Vopnafjörð. Bátar sem sáust voru á grásleppuveiðum og voru með öll sín mál í lagi, einnig sáust tveir steypireyðir á sundi á Bakkafirði. Var þetta ótrúleg sjón sem áhöfninni langar til að deila með öðrum.
Á fréttavefnum www.vopnafjordur.is segir um TF-LÍF; “Þegar hún flaug inn yfir þorpið og var búin að taka einn hring þá stoppaði hún yfir leikskólanum og "hékk" þar yfir í smá stund en það vakti mikla kátínu hjá smáfólkinu eins og gefur að skilja en síðan lenti hún á fótboltavellinum þar sem fólk kom skoðaði gripinn”.
180409/HBS