Afrek unnið í sameiginlegri aðgerð Landhelgisgæslu og lögreglu

  • SYN_15_juni_2005

20. apríl 2009

Varðskipið TÝR stöðvaði kl. 22:35 í gærkvöldi för seglskútu djúpt út af SA-landi vegna gruns um stórfellt fíkniefnabrot. Hafði áhöfn TF-SYN fylgt skútunni nær óslitið eftir frá því þeir fundu skútuna kl. 12:30 eftir að hafa leitað á svæðinu í um klukkustund. Var Challenger þota frá danska hernum fengin til að leysa TF-SYN af, meðan farið var til eldsneytistöku á Höfn Hornafirði.

Aðgerðin hófst á laugardagskvöld en þá flaug TF-LIF með sérsveitarmenn frá Reykjavík til Hafnar í Hornafirði og varðskipið TÝR var beðið um að halda áleiðis til SA-lands á aukinni ferð. Á sunnudag var sérsveitarmönnum flogið að varðskipinu TÝ þar sem þeir sigu um borð kl. 14:50. Að því loknu flaug þyrlan á Höfn í Hornafirði að nýju og tók þar um borð efnin og flutti þau í fylgd sérsveitarmanna til Reykjavíkur, lenti þyrlan kl. 18:20.

Þegar komið var að skútunni fóru fjórir sérsveitarmenn um borð og handtóku þrjá menn, tvo Íslendinga og Hollending. Áður hafði lögregla og Landhelgisgæslan verið í talstöðvarsambandi við skútuna, sem hunsaði fyrirmæli um að stöðva og gefast upp. Mennirnir sýndu ekki mótspyrnu. Varðskipið mun færa skútuna til hafnar á Íslandi.

Um er að ræða sameiginlega aðgerð Landhelgisgæslunnar, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, lögreglunnar á Eskifirði og Sérsveitar Ríkislögreglustjóra sem hófst með handtöku þriggja manna á laugardagskvöld en fíkniefnin fundust í töskum í farangursrými bíls, sem einn þeirra ók á hringveginum nálægt Höfn. Í kjölfarið hófst leit að skútunni sem talið er að hafi flutt fíkniefnin til landsins. Landhelgisgæslan lagði til þyrlur, flugvél og varðskip og fannst skútan á laugardag við miðlínuna milli Íslands og Færeyja á leið norður fyrir Færeyjar.

200409/HBS

Sersv_siga_vsAegir

Sérsveitarmenn síga um borð í varðskipið TÝ

Segskutan1

Seglskútan á suðausturleið og gekk fyrir vélarafli. Var undir belgískum fána

Seglskutan2

Tveimur mönnum sást bregða fyrir á dekki skútunnar, þegar farið var
um borð kom í ljós að þeir voru þrír. Tveir Íslendingar og Hollendingur.

Skuta_BIHN

TF-LÍF, TF-SYN ásamt TF-EIR á flugvellinum á Höfn