Starfsmönnum Gæslunnar boðið til grillveislu

Þriðjudagur 5. maí 2009

Síðastliðinn mánudag var starfsmönnum Landhelgisgæslunnar boðið til hádegisgrillveislu í flugskýli Gæslunnar á Reykjavíkurflugvelli. Tilefni veislunnar var meðal annars góð frammistaða og árangur starfsmanna að undanförnu í erfiðum og krefjandi verkefnum þar sem samstarf og útsjónarsemi, hvort sem er í áhöfnum varðskipa, loftfara, í stjórnstöð eða annars staðar, hefur sýnt sig með skýrum hætti. Þá var ekki síður tilefnið að gleðjast yfir sjósetningu okkar glæsilega varðskips og væntanlegri komu nýrrar flugvélar eftir örfáar vikur. Boðið var upp á grillaða hamborgara og var matseld í höndum valinkunnra grillmeistara flugtæknideildar.

Grill_0009

Við erum í stakk búin til að takast á við krefjandi verkefni á hvaða vettvangi sem er.

Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar flutti ávarp við tilefnið en hann er nýkominn frá sjósetningu Þórs - hins nýja fjölnota varðskips í Chile. Hann lýsti einstakri upplifun sinni við sjósetninguna og talaði um þá byltingu sem hið nýja varðskip og flugvél munu hafa í för með sér fyrir björgunar- og eftirlitsgetu Landhelgisgæslunnar. Ný gæsluflugvél verður senn tekin í notkun en flugmenn hennar fóru nýverið til þjálfunar í Kanada. Verður koma hennar bylting í leitar-, björgunar-, gæslu- og eftirlitsflugi á hinu víðfeðma hafsvæði sem Landhelgisgæslan ber ábyrgð á. Þessi nýju tæki hafa gríðarlega þýðingu fyrir Ísland í samstarfi þjóða á Norður-Atlantshafi þar sem Landhelgisgæslan spilar sífellt stærra hlutverk og er orðinn einn mikilvægasti hlekkurinn í samstarfi strandgæslna og sjóherja á Norður-Atlantshafi.

Grill_0008

Georg hrósaði starfsfólki Landhelgisgæslunnar fyrir einstakan dugnað og elju. Þegar kæmi að krefjandi verkefnum sýndi sig hversu samstilltir og einhuga starfsmenn eru um að leysa verkefni af fagmennsku og öryggi. Með jafn vel þjálfuðum og samhentum mannskap og Landhelgisgæslan býr yfir sem og nýjum og öflugum tækjum er engin spurning að við erum í stakk búin til að takast á við krefjandi verkefni á hvaða vettvangi sem er sagði Georg.

Grill_0001

Löng biðröð myndaðist við grillið

Grill_0002

Grillað var að miklu öryggi

Grill_0003

...menn tóku hraustlega til matar síns.

Grill_0004

Mettir eftir góða máltíð.

Grill_0007

Mjög góð mæting var í grillveisluna

050509/HBS