Varnarmálafulltrúi Breta ræðir öryggismál og möguleika á auknu samstarfi við forstjóra Landhelgisgæslunnar

Þriðjudagur 12. maí 2009

D. E. Summerfield, varnarmálafulltrúi Bretlands átti í dag fund með Georg Kr. Lárussyni, forstjóra Landhelgisgælunnar ásamt Ian Whitting, sendiherra Breta á Íslandi. Er þetta í fyrsta sinn sem Íslendingar fá varnarmálafulltrúa sem tengilið hjá bresku þjóðinni. Á fundinum voru meðal annars rædd öryggis- og björgunarmál á Norður-Atlantshafi og breyttar áherslur í starfi strandgæslna og sjóherja þar sem aukið samstarf og sameinaðir kraftar eininganna skila árangri. Ný eftirlits- og björgunarflugvél og fjölnota varðskip Landhelgisgæslunnar voru kynnt fyrir Summerfield sem sér fjöldamörg tækifæri í nánari samvinnu við Landhelgisgæsluna.

Breskur_varnarm

Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar ásamt D.E. Summerfield, varnarmálafulltrúa Bretlands.

Varnarmálafulltrúi Breta er með höfuðstöðvar í Osló. Hann er nú staddur í heimsókn á Íslandi, meðal annars til að kynnast starfsemi Landhelgisgæslunnar og eftir fund hans með Georg Kr. Lárussyni, forstjóra Landhelgisgæslunnar tók hann þátt í æfingu sem fór fram með þátttöku varðskips og þyrlu Landhelgisgæslunnar. Summerfield lagði mikla áherslu á mikilvægi þess að strandgæslur og sjóherir við Norður-Atlantshaf hlúðu vel að hinu góða samstarfi sem nú þegar er til staðar og að geta þeirra á sviði öryggis- og björgunarmála væri kortlögð. Þar eru samtök eins og North Atlantic Coast Guard Forum (NACGF) ákaflega mikilvæg í þeim tilgangi að skiptast á upplýsingum og ná fullri yfirsýn yfir þann búnað, kunnáttu og getu sem fyrirfinnst innan þeirra tuttugu þjóða sem standa að samtökunum.

Breskur_varnarmfulltrui_fundur

Rædd voru öryggis- og björgunarmál á Norður-Atlantshafi

Georg Kr. Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar er formaður NACGF og taldi Summerfield að Landhelgisgæslan hefði með þátttöku sinni og formennsku í samtökunum mikilvægu hlutverki að gegna. Með nýjum björgunar- og eftirlitstækjum yrði Landhelgisgæslan enn mikilvægari hlekkur í upplýsingaskiptum og öryggis- og björgunarsamstarfi á Norður-Atlantshafi. Þá var og rætt á fundinum um hliðstæð samtök sem voru nýverið sett á stofn við Miðjarðarhaf og Svartahaf en hafa verið starfrækt um árabil við Kyrrahafið. Hugmyndafræði þeirra byggir á sambærilegum grunni og NACGF. Hafði Summerfield sérstakan áhuga á möguleikum á frekari tengingum til stofnana Sameinuðu þjóðanna í þeim tilgangi að auka öryggis- og löggæslu á hafinu en nú þegar er hafinn undirbúningur að slíku samstarfi með aðkomu formanns samtaka evrópskra sjóherja og formanns NACGF.

Breski_sendiherra

Georg heilsar Ian Whitting, sendiherra Breta á Íslandi.

Landhelgisgæslan hefur um árabil átt í miklu og góðu samstarfi við björgunarmiðstöðvarnar í Falmouth og Kinloss, þar sem breski flugherinn hefur aðsetur. Nimrod þotur breska flugherins hafa tekið þátt í leitar- og björgunaraðgerðum á hafinu og lýsti Summerfield ánægju sinni með hversu vel sú samvinna hefur gengið. Sprengjusveit Landhelgisgæslunnar hefur átt í miklu samstarfi við Breta og einnig vinnur Sjómælingasvið náið með breskum sjómælingum og er í gildi samstarfssamningur við þá vegna kortaútgáfu sjómælingasviðs Landhelgisgæslunnar. Hlutverk Summerfields verður meðal annars að vera tengiliður milli Íslendinga og Breta á sviði öryggis- og björgunarmála og koma á nýjum tengslum á þeim vettvangi. Sagðist hann hlakka til að vera þátttakandi í áframhaldandi góðu samstarfi Breta við Landhelgisgæsluna.

120509/HBS

Breskur_varnarm_hopmynd

Fundinn sátu Ian Whitting, sendiherra Breta á Íslandi, Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, D.E. Summerfield, varnarmálafulltrúa Bretlands, Halldór B. Nellett, framkvæmdastjóri Aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar, Gylfi Geirsson, forstöðumaður fjarskiptaþróunar- og fjareftirlits hjá Landhelgisgæslunni og Ásgrímur L. Ásgrímsson, yfirmaður Vaktstöðvar siglinga.