Varðstjórar skipaeftirlitsstöðvarinnar í Vardö heimsækja Landhelgisgæsluna

  • Vardoe

Fimmtudagur 14. maí 2009

Landhelgisgæslan fékk í gær heimsókn varðstjóra frá skipaeftirlitsstöðinni Vardo VTS (e.vessel traffic service) í Norður Noregi. Tilgangur heimsóknarinnar var fyrst og fremst að kynna þeim starfsemi Stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar en einnig fengu varðstjórarnir kynningu á öðrum einingum innan Landhelgisgæslunnar auk Fjarskiptamiðstöðvar Lögreglunnar, Neyðarlínunnar og Samhæfingarstöðvar almannavarna og stjórnstöð leitar og björgunar. Var þetta fyrsta hópferð starfsmanna Vardö skipaeftirlitsstöðvarinnar og fannst þeim viðeigandi í ljósi góðrar samvinnu landanna að heimsækja Landhelgisgæsluna fyrst.

Vardo_Georg

Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar heilsaði upp á varðstjórana þegar þeir áttu leið um Sjómælingasvið.

Kom það norsku varðstjórunum á óvart hversu umfangsmikið starf stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar er.  Hlutverk varðstjóra í Vardö er að fylgjast með umferð skipa meðfram ströndum Noregs og grípa inn í ef á þarf að halda.  Önnur verkefni þau sem eru  í umsjón stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar svo sem leit og björgun, fiskveiðieftirlit, samskipti við einingar strandgæslu og sjóhers o.s. frv. fer fram annarstaðar hjá Norðmönnum og er dreift víða um landið.

Í lok heimsóknar þökkuðu varðstjórarnir kærlega  fyrir góðar móttökur og komið var inn á mikilvægi þess að starfsmenn stjórnstöðvanna á Íslandi og í Noregi hittu kollega sína augliti til auglitis og skipust á skoðunum um samstarfið.

Vardo_Asgrimur_Stale

Ståle Sveinungsen, yfirvarðstjóri færir Ásgrími L. Ásgrímssyni yfirmanni Stjórnstöðvar/Vaktstöðvar siglinga, fána Kystværket sem fer með stjórn skipaeftirlitsstöðvarinnar í Vardö.

Í desember 2007 gerði Landhelgisgæslan samkomulag  við skipaeftirlitsstöðina í Vardö um að skiptast á upplýsingum um skipaumferð en eftirlitsstöðin vaktar meðal annars alla skipaumferð á hafsvæðinu undan Norður- og Norðvestur Noregi. Samkomulagið felst í að Vardö sendir Landhelgisgæslunni allar upplýsingar um skip sem eru á leið til Íslands eða suð-vestur um haf, til Bandaríkjanna eða Kanda. Í tilkynningunum eru skráðar stærðir skipanna, farmur þeirra, djúprista, fjöldi í áhöfn, hvar og hvenær viðkomandi skip kemur inn í efnahagslögsögu Íslands og fyrirhuguð leið skipanna um lögsöguna og hvar þau sigla út úr henni. Mjög mikilvægt er að fá þessar upplýsingar með góðum fyrirvara, er þá mögulegt að sjá fyrirhugaða leið viðkomandi skipa um lögsöguna. Getur þá Landhelgisgæslan, ef þörf krefur, brugðist við með viðeigandi hætti.

Landhelgisgæsla Íslands upplýsir Vardö VTS á sama hátt um þá skipaumferð sem Landhelgisgæslunni er kunnugt um að stefni til Norður Noregs eða Rússlands. Á það bæði við um skip sem láta úr höfn á Íslandi og þau skip sem varðskip og eftirlitsflugvél LHG verða vör við í efnahagslögsögunni.

Með vaxandi olíuvinnslu Rússa má gera ráð fyrir aukinni umferð stórra olíu- og gasflutningaskipa með stóra farma frá Rússlandi og norður Noregi, m.a. á leið til Bandaríkjanna. Spáð er að allt að 500 stór tankskip fari árlega með farma allt að 100 þús. tonn um lögsögu Ísland á leið sinni vestur um haf árið 2015 eða eftir einungis 5 ár.

Myndirnar tók Hrafnhildur Brynja, upplýsingafulltrúi.

Vardo_flugdeild

Thorben J. Lund yfirstýrimaður flugrekstrarsviðs Landhelgisgæslunnar
kynnir starfsemi Flugdeildar.

Vardoe_hopur

Varðstjórarnir fimm frá skipaeftirlitsstöðinni í Vardö.

150509/HBS